Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2012

Fagráðstefna skógræktar 2012: Tegundir, kvæmi og klónar í íslenskri skógrækt

Með Fundir og ráðstefnur

Fagráðstefna skógræktar 2012 verður haldin dagana 27.-29. mars n.k. Ráðstefnan er haldin árlega og er hefð fyrir því að hún flakki réttsælis um landið, á nýjum og nýjum stöðum. Að þessu sinni verður hún á Fosshótel Húsavík.

Rúta er í boði fyrir ráðstefnugesti frá Akureyrarflugvelli til Húsavíkur þriðjudaginn 27. mars kl. 17:00 og til baka frá Húsavík til Akureyrar 29. mars kl. 15:00. Ráðstefnugögn verða afhent kl. 18:00 til 19:00 þriðjudaginn 27. mars. Fyrir liggur mjög hagstæður samningur við hótelið, svo verð á mat og gistingu er afar hagstætt. Eru allir hvattir til að mæta á umræddum tíma á þriðjudeginum og nota kvöldið til að rækta tengslin við annað skógarfólk. Reiddur verður fram kvöldverður kl. 19:00 á þriðjudagskvöldið. Dagskrá ráðstefnunnar hefst kl. 9:00 á miðvikudeginum, þannig að eigi menn ekki um þeim mun skemmri veg að sækja, kemur sér vel að geta mætt strax kvöldið áður.

Skráning á ráðstefnuna fer fram til 1. mars í tölvupóst Skráningareyðublað má nálgast hér (pdf)

Skipulagsnefnd óskar jafnframt eftir erindum (20+10 mín.) og veggspjöldum á fagfundinn. Áhugasamir sendi tillögur á nls (hjá) nls.is eða einhvern fulltrúa í skipulagsnefnd fyrir 1. mars n.k. Viðkomandi verða látnir vita fyrir 7. mars hvort þeir fá úthlutað erindi eða veggspjaldi.


Kostnaður:
Ráðstefnugjald: 4.000,-
Gisting og matur (gist í 2ja manna herbergi): 21.460,-
Gisting og matur (gist í eins manns herbergi): 30.460,-
Innifalið í ráðstefnugjaldi eru ráðstefnugögn, skoðunarferð, rúta o.fl. Innifalið í gjaldi fyrir gistingu og mat er: Gisting í tvær nætur á Fosshótel Húsavík, tveir kvöldverðir, þ.a. einn hátíðarkvöldverður, tveir hádegisverðir og morgunmatur á miðvikudags- og fimmtudagsmorgni og ráðstefnukaffi.

Drög að dagskrá:
Uppfærð drög að dagskrá verður að finna á:
http://www.skogur.is/fagradstefna2012 innan skamms. Meðal efnis sem þegar liggur fyrir eru erindi um kvæmaval stafafuru, fjallaþins, skógarfuru og sitkagrenis byggt á nýjum mælingum á misjafnlega gömlum kvæmatilraunum. Flutt verður erindi um kynbætur á alaskaösp og skoðuð almenn reynsla af notkun elris á Íslandi.  Fjölmargar óskir um veggspjöld hafa einnig komið fram.  Endanleg dagskrá mun fyrst liggja fyrir 7. mars þegar búið verður að meta allar innsendar tillögur og óskir um flutning erinda og kynningu veggspjalda.

Þriðjudagur 27. mars 2012
17:00 Brottför Rúta frá Akureyrarflugvelli (flug Rvík-Ak. 16:00-16:45)
18:00-19:00 Skráning og afhending ráðstefnugagna
19:00-20:00 Kvöldmatur á Hótel Húsavík
20:30 -> Spjall og ýmsir fundir s.s. aðalfundur Skógfræðingafélagsins

Miðvikudagur 28. mars 2012
9:00- 9:10 Setning, gestir boðnir velkomnir
9:10-10:10 Inngangserindi
10:10-10:40 Erindi
10:40-11:00 Kaffihlé
11:00-12:30 3 erindi
12:30-13:30 Matur
13:30-15:00 3 erindi
15:00-15:30 Kaffihlé
15:30-16:30 Veggspjaldakynning
16:30-17:00  Hlé
17:00-19:00 Gönguferð í lystigarð Húsavíkur og í grenilundinn ofan Húsavíkur.  Kynning á Garðarshólmsverkefninu (snarl)
20:00->  Kvöldverður og skemmtidagskrá

Fimmtudagur 29. mars 2012
9:00-10:30 3 erindi
10:30- 11:00 Kaffi
11:00-12:30 3 erindi
12:30-13:30 Matur
13:30-14:30 2 erindi
14:30-15:00 Samantekt – ráðstefnuslit
15:00 Brottför með rútu til Akureyrar (flug 17:10-17:55)

fagradstefna

 

Fuglavernd: Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar

Með Ýmislegt

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 27. – 30. janúar en gott er að hefja undirbúning talningar allt að viku áður með því að lokka fuglana að með fóðurgjöfum. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma einhvern þessara daga, skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir.

Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund en upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra má m.a. finna á vefsíðu Fuglaverndar (www.fuglavernd.is ) og í Garðfuglabæklingnum sem fæst á skrifstofu félagsins. Að lokinni athugun skal skrá niðurstöðurnar á þar til gert eyðublað og senda til Fuglaverndar í tölvupósti eða í pósti (Fuglavernd, Skúlatúni 6, 105 Reykjavík).

Til gamans má segja frá því að 18 tegundir sáust í görðum í fyrra sem er met en 261 skiluðu inn niðurstöðum – þrátt fyrir óhagstætt veður til garðfuglaskoðunar. Samtals voru 7287 fuglar í görðum, flestir starar eða 3294.

Fuglavernd vill minna kattareigendur á að halda köttum sínum sérstaklega inni í ljósaskiptunum þegar fuglarnir eru auðveld bráð.

fuglavernd-gardfuglar

(Mynd: Örn Óskarsson)

 

Landvernd: Hvað ógnar lífríki Þingvallavatns og náttúru þjóðgarðsins? Frestun til 24. janúar

Með Ýmislegt

Landvernd efnir til opins fundar um stjórnun þjóðgarðsins á Þingvöllum og álag á vistkerfi Þingvallavatns. Fundurinn verður haldinn í Norræna húsinu, þriðjudaginn 24. janúar kl. 12-13:30.

Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur flytur fyrirlestur undir heitinu ,,Þingvellir, alvöru þjóðgarður?“ og Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, flytur fyrirlesturinn ,,Þingvallavatn: Dýrmætt vistkerfi undir álagi“.

Í fyrirlestrunum verður leitað svara við ýmsum mikilvægum spurningum, m.a.: Hvernig þjóðgarður er á Þingvöllum? Er rétt að hann starfi undir stjórn þingmanna? Hvernig er staðið að verndun lífríkis og menningarminja? Hvaða áhrif hefur aukin umferð á tærleika og lífríki Þingvallavatns? En bústaðabyggðin? Hvað með Nesjavallavirkjun? Er þessi ,,helgistaður þjóðarinnar“ undir of miklu álagi?

Fundarstjóri er Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar. Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Norræna húsið. Allir velkomnir.

Sjá nánar á heimasíðu Landverndar (hér).

Fræðsluferð til Þýskalands

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands hefur um áraraðir staðið fyrir fræðsluferðum á erlenda grund og er ferð ársins 2012 nú í undirbúningi.  Stefnan er tekin til upprunalands skógræktar sem slíkrar, Þýskalands, og er fyrirhugað að fara þangað næsta haust, í september.

Fyrirhugað er að fljúga til München og fara þaðan í um viku ferð um Bæjaraland (Bayern) til að skoða skóga og vinnslu afurða skóga, auk þess sem ætlunin er að hitta þarlent skógarfólk. Einnig verður, eins og ávallt, hugað að almennri skoðun á náttúru og sögustöðum svæðisins og má þar sérstaklega telja til kastala, en af þeim er töluvert í Bæjaralandi. Á stefnuskránni er að skoða að minnsta kosti einn slíkan.

Hægt er að skrá sig strax á áhugalista fyrir ferðina til að fá nánari upplýsingar um ferðina um leið og þær liggja fyrir. Hafið samband við Skógræktarfélag Íslands, skog (hjá) skog.is eða s. 551-8150.

Í þessa ferð okkar, líkt og aðrar, gildir að fyrstur kemur, fyrstur fær.