Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2011

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna

Með Fundir og ráðstefnur

Laugardaginn 26. febrúar var fulltrúafundur skógræktarfélaganna haldinn í Harðarbóli í Mosfellsbæ og var Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gestgjafi fundarins. Þema fundarins að þessu sinni voru hinar ýmsu skógarnytjar. Á fundinn mættu um 60 fulltrúar frá skógræktarfélögum um land allt.

Fundurinn hófst með ávörpum Þuríðar Yngvadóttur, formanns Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélag Íslands, en síðan tóku við fræðsluerindi. Fyrstur tók til máls Björgvin Eggertsson, frá Landbúnaðarháskóla Íslands og fjallaði hann um jólatré – framleiðslu þeirra hérlendis, hlutdeild af markaði og framtíðarhorfur. Því næst fjallaði Steinar Björgvinsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, um trjágreinar sem skreytingarefni, en hann vann lokaverkefni í skógrækt um mat á hentugleika efniviðar úr íslenskri skógrækt til skreytingagerðar. Síðan tók til máls Bjarni Diðrik Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands, og fjallaði hann um sveppi og sveppatínslu. Fór hann yfir helstu matsveppi sem finnast í íslenskum skógum og mat á verðmæti þeirra.

Eftir hádegismat fjallaði Karen Pálsdóttir, Háskóla Íslands, um ber og berjatínslu í Heiðmörk, sem hún rannsakaði sem hluta af stærra verkefni um virði Heiðmerkur. Þá fjallaði Ólafur Erling Ólafsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, um viðarafurðir – helstu sem nú eru og hugmyndir um framtíðarnot. Björn Traustason, Skógrækt ríkisins, fjallaði svo stuttlega um skógarstaðal sem unnið hefur verið að og prófun hans á einum skógarreita Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Lilja Oddsdóttir kynnti svo félagið Á-vöxtur, sem er hvatafélag um ræktun ávaxtatrjáa á Íslandi.

Eftir töluverðar umræður um efni erinda var haldið í skoðunarferð um nokkra skógarreiti Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Byrjað var í Hamrahlíð, þar sem Ólafur Erling Ólafsson sýndi  útkeyrsluvél, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur fékk í byrjun nóvember. Því næst var ekið að nýju sumarhúsi Skógræktarfélag Mosfellsbæjar við Hafravatn, en það var byggt í stað húss sem brann í fyrra. Litið var um í Þormóðsdal og svo kíkt á skógarreiti í Mosfellsdal.

Fundinum lauk svo með samkomu í Harðarbóli, félagsheimili Hestamannafélagsins Harðar.

09
Fundargestir skoða skógarreit Skógræktarfélags Mosfellsbæjar í Hamrahlíð (Mynd: BJ)

Tré fyrir götur og torg – fundur 21. febrúar

Með Fundir og ráðstefnur

Næstkomandi mánudag, þann 21. febrúar standa Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ), Reykjavíkurborg og FIT fyrir fundi í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu. Tilefni fundarins er umræða undanfarið um aspir og önnur götutré í Reykjavík og verður fjallað um trjágróður í borg á faglegum nótum. Fundurinn er kl. 14-16 og gert ráð fyrir umræðum í lokin, vonandi mæta einhverjir fulltrúar úr borgarstjórn.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Dagskrá:
Fundarstjóri:  Björgvin Örn Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, LbhÍ

14:00 – 14:05 Setning.
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ
14:05 – 14:25 Helstu trjátegundir í ræktun (aspir, víðir, greni, fura, reynir, birki)  í þéttbýli landsins – hlutverk sveitarfélaga í að skapa heildarskjól í þéttbýli, kostir og gallar mismunandi tegunda.
Samson B. Harðarson, landslagsarkitekt, lektor við LbhÍ
14:25 – 14:45 Götutré – hvaða kostum þurfa þau að vera búin, ösp sem götutré, hvað gæti komið í stað aspar sem götutrés? 
Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur, lektor við LbhÍ
14:45 – 15:05 Gróður og gæði – hvaða gæði er verið að búa til innan þéttbýlis með gróðursetningu plantna?  (Heilsufarsleg/fagurfræðileg gæði.)  Er hægt að forgangsraða gæðum eftir mikilvægi? 
Einar E. Sæmundsen/Áslaug Traustadóttir, landslagsarkitektar, Landmótun sf.
15:05 – 15:25

Götutrén í Reykjavík, hvaða lærdóm má draga, framtíðarstefnumörkun. 
Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar

15:25 – 16:00 Umræður og fyrirspurnir

trefyrirgotur

Glæsileg tré á Hofteigi (Mynd: RF).

Skóm plantað

Með Ýmislegt

Það hafa ýmsar aðferðir verið notaðar við sáningu fræja og gróðursetningu í gegnum tíðina. Hollenskt skófyrirtæki hefur komið fram með alveg nýja leið, með framleiðslu á skóm sem má grafa í mold eftir að hefðbundinni notkun lýkur og vex þá upp af þeim tré. Í skónum eru trjáfræ og er efni skónna þannig að það leysist upp í mold með tímanum.

Nánar má lesa um skóna á heimasíðu fyrirtækisins (hér).

Munið eftir skógarfuglunum (og öðrum fuglum)!

Með Ýmislegt

Nú er fallegt vetrarveður víða um land og reyniberin á þrotum. Því er mikilvægt að gefa smáfuglunum svo þeir nái að þreyja þorrann. Ekki sakar að ef gefið er reglulega bætast ýmsar framandi tegundir í hópinn.

Á myndinni má sjá silkitoppur gæða sér á góðgæði  í húsagarði í vesturbæ Reykjavíkur sunnudaginn 6. febrúar.

silkitoppur

Til hamingju Helgi Hallgrímsson!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands óskar Helga Hallgrímssyni til hamingju með að hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011 í flokki fræðirita fyrir Sveppabókina.

Helgi hefur unnið að bókinni í hartnær tvo áratugi, en hún kom út nú í haust. Í bókinni er farið yfir það helsta tengt sveppum hérlendis, meðal annars er fjallað um mat- og eitursveppi, ræktun matsveppa, sögu svepparannsókna hérlendis og fjölmörgum íslenskum tegundum lýst í máli og myndum, með áherslu á nytjasveppi og sveppi er geta skaðað fólk, dýr, ræktaðar plöntur eða matvæli. Sveppabókin er byggð á könnun og söfnun Helga á íslenskum sveppum í 50 ár, auk rannsókna fjölmargra annarra fræðimanna í yfir eina öld.

Sveppir eru einn af grundvallarþáttum lífríkisins, en þá er næstum alls staðar að finna þar sem eitthvert líf þrífst. Þeir mynda svepprætur með blómplöntum og trjám og án þeirra væri skógrækt á Íslandi ekki möguleg.

sveppir
(Mynd: RF).