Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2011

Fulltrúafundur 2011

Með Fulltrúafundir

Laugardaginn 26. febrúar var fulltrúafundur skógræktarfélaganna haldinn og var Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gestgjafi fundarins. Þema fundarins að þessu sinni voru hinar ýmsu skógarnytjar. Á fundinn mættu um 50 fulltrúar frá skógræktarfélögum um land allt.

Fundurinn hófst með ávörpum Þuríðar Yngvadóttur, formanns Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélag Íslands, en síðan tóku við fræðsluerindi. Fyrstur tók til máls Björgvin Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands og fjallaði hann um jólatrjáarækt. Fór hann yfir ræktun og sölu þeirra hérlendis,  helstu tegundir og markaðshlutdeild íslenskra jólatrjáa. Einnig fór hann yfir mismunandi ræktunaraðferðir og hverju þyrfti að huga að í framtíðinni. Því næst fjallaði Steinar Björgvinsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, um trjágreinar sem skreytingarefni, en hann vann lokaverkefni  sitt í skógrækt um mat á hentugleika efniviðar úr íslenskri skógrækt til skreytingagerðar. Fór hann yfir helstu not trjágreina og annars skógarefnis til skreytinga og stærð markaðarins fyrir þetta efni. Einnig tók hann fyrir helstu tegundir sem fluttar eru inn og fór yfir hvaða tegundir í ræktun hér gætu mögulega leyst hluta innflutningsins af hólmi.  Síðan tók til máls Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og fjallaði hann um sveppi og sveppatínslu. Fór hann almennt yfir hvað sveppir sé og yfir helstu matsveppi sem finnast í íslenskum skógum. Einnig fjallaði hann um helstu atriði er hafa þarf í huga við sveppatínslu og  mat á verðmæti sveppa, en engar almennilegar rannsóknir hafa farið fram á því hérlendis. Að erindi Bjarna loknu tók við hádegisverður.

Eftir hádegismat fjallaði Karen Pálsdóttir, Háskóla Íslands, um ber og berjatínslu í Heiðmörk. Rannsakaði hún það sem hluta af stærra verkefni um virði Heiðmerkur, en markmið þess er að gera fyrstu heildstæðu rannsóknina á virði þjónustu náttúrunnar á Íslandi. Snérist rannsókn hennar um að afla grunnupplýsinga um útbreiðslu berja, kanna nýtingu þeirra og áætla virði þeirra. Þá fjallaði Ólafur Erling Ólafsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, um viðarafurðir. Fór hann yfir helstu vöruflokka viðarafurða sem unnir eru úr skógum landsins í dag, hugmyndir um framtíðarnot og af hverju þurfi að huga í því sambandi.  Björn Traustason, Skógrækt ríkisins, fjallaði svo stuttlega um skógarstaðal sem unnið hefur verið að og prófun hans á einum skógarreita Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Lilja Oddsdóttir kynnti svo félagið Á-vöxtur, sem er hvatafélag um ræktun ávaxtatrjáa á Íslandi.

Eftir töluverðar umræður um efni erinda var haldið í skoðunarferð um nokkra skógarreiti Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Byrjað var í Hamrahlíð, þar sem Ólafur Erling Ólafsson sýndi  útkeyrsluvél, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur fékk í byrjun nóvember, en hún hentar mjög vel fyrir skógar- og útivistarreiti skógræktarfélaga, þar sem hún er nett og fer betur með skógarbotninn. Því næst var ekið að nýju sumarhúsi Skógræktarfélag Mosfellsbæjar við Hafravatn, en það var byggt í stað Sumargerðis, sumarbústaðar félagsins, sem brann í fyrra. Húsið er skemmtilega staðsett og verður mjög fínn samkomustaður þegar það er fullbúið. Litið var um í Þormóðsdal og svo kíkt á skógarreiti í Mosfellsdal, en vegna snjóa var ekki hægt að skoða reitina eins vel og til stóð.

Fundinum lauk svo með samkomu í Harðarbóli, félagsheimili Hestamannafélagsins Harðar, þar sem fundarfulltrúum og öðrum gestum gafst tækifæri til að ræða skógarmálin frekar.

 

Umsögn Skógræktarfélags Íslands um tillögu að breytingum á náttúruverndarlögum.

Með Ýmislegt

Þann 14. desember setti umhverfisráðuneytið í kynningu tillögur nefndar að breytingum á náttúruverndarlögum.

Skógræktarfélag Íslands sendi ráðuneytinu bréf ásamt athugasemdum við uppgefnar tillögur og má lesa athugasemdir félagsins hér (pdf).

Samantekt:

Frumvarpið er ekki unnið í samráði við hagsmunaaðila, þvert á fögur fyrirheit þar að lútandi við upphaf starfs þeirrar nefndar sem vann drögin.

Nefndin hefur ekki leitað samráðs út fyrir hópinn, er einsleit að samsetningu og hugmyndafræðilega einsýn. Í nefndinni sitja m.a. forstöðumenn tveggja stofnana sem leggja sem slíkir til víðtækar gjaldtökur sem renna eiga sem sértekjur til viðkomandi stofnana. Er það óviðunandi í ljósi ákalls um breytt og siðleg vinnubrögð í stjórnkerfinu.

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni er ranglega túlkaður í frumvarpinu þar sem horft er eingöngu á eina grein samningsins, 8(h), og hún tekin úr samhengi við heildarmarkmið samningsins. Samningurinn fjallar fyrst og fremst um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda, aðgang þjóða að þeim og samvinnu þeirra um réttláta skiptingu arðs af þeim og verndun þessara auðlinda til hagsbóta fyrir manninn. Samninginn ber að túlka í því ljósi en ekki valinna atriða sem varða vernd lífvera eða búsvæða þeirra.

Frumvarpið í óbreyttri mynd heggur í lögbundin ákvæði Stjórnarskrár Íslands.

Þörfin fyrir breytingar á 41. gr. núgildandi laga er órökstudd og óþörf. Ef vísindaleg rök hníga að því að ein eða fleiri tegund jurta sé á góðri leið með að útrýma einni eða fleiri tegundum eða vistgerðum á landsvísu þá gætu það verið gild rök til að bregðast við. Engin dæmi eru hins vegar þekkt um tjón af völdum ágengra framandi plantna sem hefur orðið á gildistíma núgildandi náttúruverndarlaga og tilgátur um yfirvofandi tjón og ógn hafa ekki verið rökstuddar. Ekkert bendir til þess að stærð vandamálsins réttlæti þær verulegu skerðingar á athafnafrelsi og eignarrétti manna til að rækta framandi plöntur á Íslandi sem felst í frumvarpsdrögunum. Ekkert bendir til að núverandi athafnafrelsi ræktenda ógni stöðugleika, jafnvægi og fjölbreytni lífríkis landsins.

Frumvarpið, í óbreyttri mynd, leggur íþyngjandi kröfur á alla ræktendur í landinu, skaðar allt ræktunarstarf á Íslandi, en er jafnframt óþarft og ólíklegt til að ná því óljósa markmiði sem að er stefnt, þ.e. verndun líffjölbreytni Íslands.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir fækkun aspartrjáa í miðborginni

Með Ýmislegt

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað þann 18. janúar að fela garðyrkjustjóra Reykjavíkur að móta áætlun um fækkun aspartrjáa í miðborginni.

Samkvæmt tillögu Besta flokksins og Samfylkingarinnar á að hefjast handa við að fjarlægja aspir og setja önnur tré í staðinn, en í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna lýsti Jón Gnarr borgarstjóri því yfir í pistli að garðahlynur og birki væru mun fallegri tré sem hentuðu betur í borginni (sjá nánar á mbl.is).

Ekki deila þó allir þessum smekk borgarstjóra (sjá hér og hér).

Skógræktarfélag Íslands kannast ekki við að samráð hafi verið haft við félagið við undirbúning frumvarps að breytingum á lögum um náttúruvernd.

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Umhverfisráðuneytið heldur því fram að samráð hafi verið haft við Skógræktarfélag  Íslands við undirbúning frumvarps að breytingum á lögum um náttúruvernd. Af því  tilefni vill Skógræktarfélag Íslands koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Þann 13. nóvember 2009 skipaði umhverfisráðherra nefnd til heildarendurskoðunar laga um náttúruvernd.  Fram kemur á heimasíðu Umhverfisráðuneytis þegar skipun nefndarinnar er tilkynnt  að „Nefndin skal skila umhverfisráðherra fullunnu frumvarpi fyrir 1. júní 2010 en skila stuttri áfangaskýrslu í lok mars 2010“. Þann 20. maí 2010 sendir þáverandi formaður nefndarinnar tölvupóst til framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Bréfið er stutt og almenns eðlis. Áfangaskýrslan fylgir ekki með bréfinu, né upplýsingar um störf nefndarinnar eða þá stefnubreytingu sem málið tók í meðförum hennar. Kallað er eftir ábendingum en eins og áður kemur fram fylgdu engin gögn eða upplýsingar bréfinu. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið samráð „sameiginleg ráðagerð“. Boð um að koma með almennar ábendingar á frumstigi í starfi lokaðrar nefndar flokkast ekki sem sameiginleg ráðagerð við hagsmunaaðila.  Það umsagnarferli sem nú er í gangi getur hins vegar flokkast sem samráð, háð því að nefndin taki fullt tillit til umsagnanna.

Þann 14. desember síðastliðinn tilkynnir Umhverfisráðuneytið að „drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúruverndarlögum“ sé opið til umsagnar til 7. janúar.  Þar er gert opinbert í fyrsta skipti að í stað heildarendurskoðunar náttúruverndarlaga er framkomið tilbúið frumvarp til breytinga á nokkrum greinum laga um náttúruvernd.

Ef raunverulegt samráð hefði verið haft við Skógræktarfélag Íslands, þá hefði félagið sannarlega verið búið að koma áhyggjum á framfæri á fyrri stigum málsins. Það verður að teljast afar sérkennilegt að nefndin, sem hélt fjölda funda,  skuli ekki á þeim tíma hafa haft fyrir því að óska eftir umsögnum og athugasemdum hagsmunaaðila.  Þrátt fyrir að stefnu- og áherslubreyting hafi orðið á störfum nefndarinnar kom ekkert opinberlega frá nefndinni fyrr en þann 14. desember, þá sem fullmótað frumvarp til breytinga á náttúruverndarlögum. 

Skógræktarfélag Íslands er langt frá því að vera eini fulltrúi hagsmunaaðila sem kemur af fjöllum um meint samráð;  hið sama á við um ráðuneyti, stofnanir, hagsmunasamtök, félagasamtök og flesta er málið varðar, svo ekki sé talað um almenna borgara þessa lands. Fögur fyrirheit í skipunarbréfi nefndarinnar, um „ víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila“ og að nefndin skuli „skilgreina hagsmunaaðila við upphaf starfsins og kynna þeim ferli samráðsins“ og þá væntanlega halda þeim upplýstum um störf nefndarinnar og vinna tillögur í fullri sátt við hagsmunaaðila, teljast því miður ekki annað en innantómt orðagjálfur.

Alþjóðlegt ár skóga 2011 sett af stað á Bessastöðum

Með Ýmislegt

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 2011 alþjóðaár skóga og er því ætlað að auka vitund fólks um mikilvægi skóga og styrkja sjálfbæra umhirðu, vernd og vöxt skóga til hagsbóta fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti árið formlega við athöfn á Bessastöðum 12. janúar. Var forsetanum afhentur fáni með íslenskri útfærslu alþjóðlegs merkis Sameinuðu þjóðanna um ár skóga 2011 við það tækifæri af fulltrúum skógargeirans á Íslandi.

Ýmsir viðburðir eru fyrirhugaðir á árinu í tengslum við ár skóga og verða þeir kynntir jafnóðum.

 

arskoga2011-bessastadir
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt fulltrúum frá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Landssamtökum skógareigenda, Landshlutaverkefnum í skógrækt, Nýsköpunarmiðstöð, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Tillaga að breytingu á náttúruverndarlögum

Með Ýmislegt

Á vefsíðu umhverfisráðuneytisins eru nú kynntar tillögur nefndar að breytingum á náttúruverndarlögum (sjá hér). Jafnframt er öllum boðið að senda inn athugasemdir við tillögurnar til ráðuneytisins og hefur frestur til þess verið lengdur til og með 21. janúar.

Töluverðar umræður hafa spunnist um þessar tillögur (sjá hér) og eru allir hvattir til að kynna sér drögin og koma með athugasemdir.