Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

nóvember 2010

Umsókn um styrk úr Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

Með Skógræktarverkefni

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. 

Til úthlutunar verða samtals 4 milljónir króna.  Styrkirnir eru lausir til umsóknar frá og með 1. desember 2010 og umsóknum skal skilað eigi síðar en 10. janúar 2011.  Umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðum Landgræðslu ríkisins (land.is), Skógræktar ríkisins (skogur.is) og Skógræktarfélags Íslands (skog.is).

Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi (á geisladiski sem rtf, pdf eða word skjal).  Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.  Umsóknum skal skila til: Landgræðslusjóðs, Skúlatúni 6, 105 Reykjavík.  Skrifa skal skýrt á umslag: „Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson“.

Minningarsjóður um Hjálmar R. Bárðarson og konu hans Else stofnaður

Með Ýmislegt

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Landgræðslusjóður og Landgræðsla ríkisins, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, hafa stofnað minningarsjóð um Hjálmar og  eiginkonu hans, Else S. Bárðarson.

Í erfðaskránni komu fram óskir Hjálmars um ráðstöfun á arfinum og óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og þar segir.

Sjóðurinn fær í stofnfé 20 milljónir króna frá hvorum aðila og á að starfa í 10 ár.  Er markmið hans að styrkja rannsóknaverkefni í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Ný bók: Lífssaga Margrétar í Dalsmynni

Með Ýmislegt

Út er komin bókin Með létt skap og liðugan talanda – lífssaga Margrétar í Dalsmynni, eftir Önnu Kristine Magnúsdóttur.  Margréti Guðjónsdóttir í Dalsmynni þarf vart að kynna fyrir skógræktarfólki, en hún hefur verið formaður Skógræktarfélags Heiðsynninga til margra ára og verið virkur þátttakandi í ýmsum samkomum skógræktarfélaga, sérstaklega aðalfunda Skógræktarfélags Íslands.

Auk þess að vera landsfræg skógræktarkona er Margrét hagyrðingur og ellefu barna móðir.  Auk sinna eigin barna tók Margrét, ásamt Guðmundi manni sínum, mörg börn í sveit á hverju sumri og í bókinni segja mörg þeirra frá ævintýralegri dvöl í Dalsmynni. Bókin er full af fróðleik og skemmtun, enda Margrét ekkert að skafa af hlutunum.

Nánar má kynna sér bókina á heimasíðu Bókaútgáfunnar Hóla (hér).

 

margretarbok

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: jólatrjáasala

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður að venju í Selinu (Þöll) við Kaldárselsveg næstu fjórar helgar fram að jólum.

Auk íslenskra furu- og grenijólatrjáa býður félagið upp á greinar, köngla, mosa, leiðisgreinar og jólaskreytingar úr íslensku efni. Opið verður næstu helgi (27. og 28. nóv) frá kl. 10.00 – 16.00. Næstu þrjár helgar þar á eftir verður opið laugar- og sunnudaga frá kl. 10.00 – 18.00.
Gestum er boðið upp á heitt súkkulaði og kökur í notalegu umhverfi skógarins.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma félagsins: 555-6455.

Fundur um náttúruvernd og ferðaþjónustu

Með Ýmislegt

Umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið efna til fundar um náttúruvernd og ferðaþjónustu á Grand Hótel, fimmtudaginn 18. nóvember kl. 8:30-10:00. Á fundinum verður fjallað um nýlega úttekt Umhverfisstofnunar á álagi á friðlýstum svæðum vegna ferðamanna, úrræði til umbóta, fjármögnun þeirra og leiðir til að tryggja að ferðaþjónusta og náttúruvernd fari saman.

Dagskrá:
• Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
 Ástand og umbætur á friðlýstum svæðum. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
• Ferðamannastaðir á Íslandi – uppbygging til framtíðar. Elías Gíslason, forstöðumaður ferðamálasviðs Ferðamálastofu.
• Uppbygging ferðamannastaða. Fjármögnun, ábyrgð, sjálfbærni. Einar Torfi Finnsson, framleiðslustjóri hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum, handhafa umhverfisverðlauna Ferðamálastofu.
• Rekstur og umsjá þjóðgarða og friðlýstra svæða. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
• Ávarp Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.

Umhverfisráðstefna SEEDS

Með Fundir og ráðstefnur

Sjálfboðasamtökin SEEDS fagna um þessar mundir fimm ára afmælinu sínu og að því tilefni verður efnt til Umhverfisráðstefnu, þriðjudaginn 16. nóvember klukkan 14:00 í Iðnó í samstarfi við Landvernd og Umhverfisstofnun.

Sjálfbærni er eitt mikilvægasta málefni líðandi stundar innan umhverfisgeirans. Sjálfbær þróun og hagræn nýting náttúruauðlinda er okkur nauðsynleg til að tryggja velferð í framtíðinni. Á ráðstefnunni verða tekin dæmi um umhverfisvæn samfélög og þátt alþjóðlegra sjálfboðaliða í umhverfismálum á Íslandi. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar mun opna ráðstefnuna og er heiðursgestur hennar Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður.

Aðgangur ókeypis.

Sjá nánar á heimasíðu SEEDS (hér).

Vilt þú vera með á Jólamarkaðinum á Elliðavatni?

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur er nú í óða önn að undirbúa Jólamarkaðinn á Elliðavatni í Heiðmörk, en þar verður opið fjórar síðustu helgarnar fyrir jól. Markaðurinn var fyrst haldinn árið 2007 og hefur átt vaxandi vinsældum að fagna síðan þá.

Kjarni hans er jólatrjáasala af lendum félagsins, auk þess sem eldiviður, kurl og ýmsar smávörur, plattar o.fl. er til sölu á staðnum, að ógleymdum tröpputrjánum vinsælu.  Í Gamla salnum er síðan boðið upp á kakó og vöfflur og margskonar menningardagskrá er í gangi á hverjum degi með upplestrum og tónlistaratriðum. Á hlaðinu við Elliðavatn eru fjöldi jólahúsa þar sem í boði er íslenskt handverk af ýmsu tagi.

Þessa dagana er verið að raða á söluborðin og geta áhugasamir handverksmenn haft samband í síma 856-0058 eða á netfangið kristjan (hjá) skograekt.is.

Fuglavernd: Fuglar í Færeyjum

Með Fundir og ráðstefnur

Talsvert hefur verið skrifað um fugla í Færeyjum og ná sumar heimildir aftur til 16. aldar. Nýlegar rannsóknir hafa leitt af sér áætlanir um stofnstærðir, misnákvæmar, en leiða að því líkum að færeyskum fuglum sé að fækka. Ýmsar hættur steðja að fuglunum og er þekkt vandamál ofbeit sauðfjár og rottur en nýrra vandamál er aukin ferðamennska í eyjunum.

Þann 9. nóvember næstkomandi verður Fuglavernd með fræðslufund um fugla í Færeyjum. Þá mun Leivur Janus Hansen frá Náttúruminjasafni Færeyja halda erindi um færeyska fugla. Erindið verður á ensku.

Fundurinn byrjar kl. 20:30 og er haldinn í húsakynnum Arion-banka í Borgartúni 19. Fundurinn eru öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra.

Finna má frekari upplýsingar á vef Fuglaverndar (hér). 

Þemadagar NordGen-Skog 9.-10. nóvember

Með Fundir og ráðstefnur

Næstu þemadagar NordGen-Skog verða haldnir í Eyjafirði 9.-10. nóvember næst komandi og er efni þeirra plöntugæði (sjá á heimasíðu NordGen – hér).

Dagskrá:
Þriðjudagur 9. nóvember
 – Fundarstjóri Björn B. Jónsson
– Þýðing á sænskum fyrirlestrum – Aðalsteinn Sigurgeirsson

09:00-09:10 Setning – Valgerður Jónsdóttir, NordGen-skog
09:10-09:40  Plöntugæði út frá sjónarhóli ræktanda – Katrín Ásgrímsdóttir, Sólskógum 
09:40–10:10  Plöntugæði út frá sjónarhorni kaupanda – Hallur Björgvinsson, SLS
10:10-10:30  Kaffi
10:30-11:15  Plöntugæði- prófanir og áreiðanleiki– Anders Mattsson Högskolan Dalarna (Plantkvalitet- tester och tillförlitlighet)
11:15-11:50 Gæðaprófanir á Íslandi – Hrefna Jóhannesdóttir,  Mógilsá
11:50-12:20  Fyrirspurnir og umræður
12:20-13:15 Matur

– Fundarstjóri Brynjar Skúlason
13:15-14:00 Hvað eru plöntugæði og hvernig er ferlið frá fræi til foldar- Peter Melin, Svenska skogsplantor (Plantkvalitet i praktiken! -Vad är bra plantkvalitet? -Hur gör vi, från beställning till etablering i fält)
14:00-14:30 Sjúkdómar í plöntuuppeldi – Halldór Sverrisson, Mógilsá
14:30-15:00 Evrópulerki og framleiðsluaðferðir – Ólafur Njálsson, Nátthaga
15:00-15:20 Kaffi
15:20-17:30 Skoðunarferð í Sólskóga
19:00  Kvöldverður og huggulegheit

Miðvikudagur 10. nóvember
Fundarstjóri – Hrefna Jóhannesdóttir
09:00-09:40   Plöntuframleiðsla, staðan í dag og horfur næstu ár – Peter Melin, Svenska skogsplantor (Plantproduktion i Svenska Skogsplantor AB -Hur ser det ut i dag? -Vad kommer att hända under de närmaste åren)
09:40-10:15 Útboð og staðlar – Valgerður Jónsdóttir, NLS
10:15-10:30 Kaffi
10:30-11:00 Áhrif áburðarhleðslu sitkabastarðs í gróðrarstöð á vöxt og lifun í foldu. – Rakel J. Jónsdóttir, NLS
11:00-11:30 Opið
11:30-12:30 Umræðuhópar
-Aðkallandi tilraunir
-Staðlar og útboð
– Sjúkdómar
-Gæðaprófanir.
12:30-13:10 Matur

– Fundarstjóri Valgerður Jónsdóttir
13:10-14:00 Umræðuhópar frh.
14:00-14:30 Umræðuhópar geri grein fyrir niðurstöðum
14:30-15:00 Umræður
15:00- 15:15  Samantekt/niðurstöður og ráðstefnuslit:  Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Skráning fyrir 1. nóvember á netfangið valgerdur (hjá) nls.is.

Skráningareyðublað (.doc)

 

Ráðstefna: Fríða björk – vaxandi auðlind!

Með Fundir og ráðstefnur

Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) stendur fyrir ráðstefnu til heiðurs íslenska birkinu. Ráðstefnan er haldin að Reykjum í Ölfusi föstudaginn 5. nóvember 2010 og er ætluð öllu fagfólki í trjárækt sem og öðru áhugafólki.

Dagskrá

09:30 – 09:40  Setning ráðstefnunnar
– Ágúst Sigurðsson rektor LbhÍ
09:40 – 10:10    Vistfræði birkis 
– Ása L. Aradóttir, prófessor LbhÍ 
10:10 – 10:40 Kynblöndun birkis og fjalldrapa – yfirlit yfir íslenskar aðstæður
– Ægir Þór Þórsson, garðyrkjuráðunautur Bændasamtökum Íslands. 
10:40 – 11:00 Kaffihlé
11:00 – 11:30   Kynbætur á birki, Embla I og II
– Þorsteinn Tómasson, skrifstofustjóri sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneyti
11:30 – 12:00     Drög að stefnu í verndun og endurheimt birkiskóga
– Þröstur Eysteinsson, fagmálastjóri Skógræktar ríkisins.
12:00 – 13:00 Hádegisverður
13:00 – 13:30 Birki í skógrækt  – áætlun til framtíðar
– Hreinn Óskarsson, skógarvörður  á Suðurlandi.
13:30 – 14:00 Framleiðsla skógarplantna af birki
– Jón Kristófer Arnarson, verkefnisstjóri LbhÍ
14:00 – 14:30  Birki í garða – notkun, framleiðsla og fleira. 
– Steinar Björgvinsson, skógfræðingur Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
14:30 – 14:50  Kaffihlé
14:50 – 15:20  Birkiplágur
– Guðmundur Halldórsso,n rannsóknarstjóri Landgræðslu ríkisins.
15:20 – 15:40  Fagurfræði birkis
– Helena Guttormsdóttir, aðjúnkt Lbhí
 15:40 – 16:00 Fyrirspurnir og umræður í pallborði

 

Ráðstefnustjóri er Björgvin Örn Eggertsson, LbhÍ
Ráðstefnugjald er kr. 3.900 (hádegismatur og kaffi innifalið) og millifærist á reikning  0354-26-4237, kt. 411204-3590, skrá nafn þátttakanda í skýringar.


Skráning fer fram á netfanginu
endurmenntun (hjá) lbhi.is (fram komi nafn, kennitala, heimili, sími) eða í síma 433-5000 til 4 nóvember.