Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júlí 2010

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Hafnarfirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Hafnarfirði verður haldinn laugardaginn 17. júlí við Hvaleyrarvatn og nágrenni. Að venju tekur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar þátt.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar/Þöll v/Kaldárselsveg
kl. 14.00: Hugvekja í Bænalundi við Höfða. Séra Guðbjörg Jóhannesdóttir.
kl. 14.30: Skógarganga að lokinni hugvekju. Leiðsögumaður Jónatan Garðarsson.
kl. 14.30-16.00: Skógarhappdrætti fyrir yngstu kynslóðina.
Dregið úr réttum lausnum kl. 16.30.
kl. 16.00 – 17.00: Kaffiveitingar í Selinu, bækistöðvum félagsins.
 
Hestamiðstöð Íshesta
Kl. 15.00 – 16.00: Börnin á hestbak. Íshestar og Hestamannafélagið Sörli verða með hesta í gerðinu við Hestamiðstöð Íshesta og verður teymt undir börnum.
 
Hvaleyrarvatn – grill
Kl. 14.30-16.30: Hægt verður að grilla við bæjarskálann. Komið með gott á grillið.
 

Nánari upplýsingar hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar í síma 555-6455.

Samningur undirritaður í Garðabæ um störf eitt hundrað ungmenna í sumar

Með Skógræktarverkefni

Síðast liðinn þriðjudag undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands, og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu við margvíslega umhirðu og ræktunarverkefni í tvo mánuði á þessu sumri. Samningurinn er hluti af sameiginlegu verkefni sem Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við samgönguráðuneytið hóf á síðasta ári.

Verkefnin sem ungmennin vinna að eru ýmis konar ræktunar- og umhirðuverkefni á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar, m.a. í Smalaholti og Sandahlíð. Á umræddum svæðum hefur Skógræktarfélag Garðabæjar unnið að ræktun útivistarskógar á annan áratug. Skógurinn er smám saman að verða að veruleika en þar hafa komið að gróðursetningu og ræktun fjölmargir sjálfboðaliðar, einstaklingar, samtök og stofnanir. Með vinnu og umhirðu á svæðunum, svo sem stígagerð, og uppbygginu á áningarstöðum, er sköpuð enn betri aðstaða fyrir gesti. Eftir því sem trén hafa stækkað hafa íbúar í vaxandi mæli heimsótt svæðin og með betri aðstöðu er hægt að fylgja eftir brýnni þörf á bættu aðgengi.

Atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og samgönguráðuneytisins hófst á síðasta ári og var hugsað sem þriggja ára verkefni árin 2009-2011. Í fyrra voru sköpuð störf fyrir tæpa 400 einstaklinga og það sem af er þessu ári hafa verið sköpuð 230 störf hjá 9 aðildarfélögum með fulltingi og aðkomu jafn margra sveitarfélaga. Vonir standa til að á næsta ári verði hægt að bæta um betur og skapa vinnu fyrir enn fleiri einstaklinga til að slá á ríkjandi atvinnuleysi ungs fólks.

samningurgbr
Barbara Stanzeit, Gunnar Einarsson og Magnús Gunnarsson við undirritun samningsins (Mynd: BJ).