Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2010

Er nauðsynlegt að eiturúð‘ana – lúpínuna?

Með Ýmislegt

Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands boða til kynningar í fundarsal þeirra síðarnefndu að Skúlatúni 6 í Reykjavík, fimmtudaginn 1. júlí, kl. 14:00 á umsögn um lúpínuskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins. Umsögnin, Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting”verður formlega kynnt og fyrirspurnum fjölmiðlafólks svarað af fulltrúum Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands. Allir eru velkomnir.

Niðurstöður sérfræðinga Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands eru í stuttu máli:

Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á né færð rök fyrir þvílíkri skaðsemi eða ógn af lúpínu eða skógarkerfli að það réttlæti kostnaðarsamar aðgerðir hins opinbera til útrýmingar þessara plöntutegunda. Hins vegar er fyllsta ástæða til að rannsaka vistfræðilega hegðun og útbreiðslu þeirra nánar til að hægt verði að komast að því hvort slík ógn sé fyrir hendi og þá hvar og í hversu miklum mæli. Einungis ber að skoða mögulega ógn út frá forsendum sem snúa að líffræðilegri fjölbreytni, en ekki t.d. hugmyndum um ásýnd lands (sem er háð smekk og ekki hægt að ræða á hlutbundinn hátt). Þar með falla niður rök fyrir því að eyða lúpínu á öllu hálendinu, í hraunum og öðrum gosminjum yfirleitt og á a.m.k. sumum friðlýstum svæðum. Skoða ber bæði jákvæð og neikvæð áhrif lúpínu og skógarkerfils á alla þá þætti líffræðilegrar fjölbreytni sem varpa má ljósi á með vönduðum rannsóknum áður en ákvarðanir eru teknar um upprætingu. Ekki er réttlætanlegt að loka landinu fyrir nýjum tegundum sem styrkt gætu íslensk gróðurlendi, gert landið byggilegra og betur í stakk búið að standast ytri áföll, og jafnframt gert landnýtingu hér á landi sjálfbærari.

Bæði umsögnin og skýrslan eru aðgengileg á vefnum:

Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi:Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)

Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)


lupinuskyrsla

(Mynd: RF).

Afmæli Heiðmerkur í sjónvarpinu

Með Fjölmiðlaumræða

Skógræktarfélag Reykjavíkur var með fjölbreytta dagskrá í síðustu viku í tilefni 60 ára afmælis Heiðmerkur. Hápunktur hátíðarhaldanna var fjölskylduhátíð á Vígsluflöt á laugardaginn, þar sem boðið var upp á ýmsar þrautir og skemmtun.

Fjallað var um fjölskylduhátíðina í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sama dag og má sjá þá umfjöllun hér.

heidmork60-1
Á fjölskylduhátíðinni voru meðal annars tréskurðarlistamenn að störfum (Mynd: BJ).

 heidmork60-2
Það var gaman að prófa þrautabrautina (Mynd: BJ).

 

 

 

 

70 ný störf í skógrækt

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson, Magnús Gunnarsson frá Skógræktarfélagi Íslands (SÍ) og Jónatan Garðarsson frá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar skrifuðu nýverið undir samning um atvinnuátak fyrir námsmenn tengt skógrækt. Mun þetta skapa störf fyrir sjötíu námsmenn í sumar.

„SÍ og samgönguráðuneytið hafa gert með sér samning um átaksverkefni á vegum SÍ sem miðar að því að skapa 220 ársverk við skógrækt og önnur tengd verkefni á árunum 2009-2011. Í þeim samningi er gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga að verkefninu. Ennfremur er gert ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samvinnu við skógræktarfélög innan SÍ.
 
Samningurinn sem undirritaður var 25. júní er hluti þessa atvinnuátaksverkefnis og með honum taka SÍ og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar að sér að skipuleggja verkefni fyrir 70 námsmenn í 2 mánuði á landssvæðum Hafnarfjarðarbæjar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar á árinu 2010, á tímabilinu júní til 30. september 2010.
 
Anna Sigurborg Ólafsdóttir þjónustu- og þróunarstjóri segir að nú þegar hafi 6o námsmenn óskað eftir vinnu við átakið. Er ljóst að mikil þörf er fyrir vinnu fyrir námsmenn en Vinnumálastofnun fór af stað með sérstakt átak fyrir námsmenn nú í vor og auglýsti 856 störf. Fékk Hafnarfjarðarbær þar af 22 ráðningarheimildir og er búið að ráða í þær stöður,“ samkvæmt fréttatilkynningu.

Frétt og mynd af www.mbl.is

 

samningurhfmbl

F.v. Jónatan Garðarsson, Lúðvík Geirsson og Magnús Gunnarsson.

Við eigum afmæli í dag…

Með Ýmislegt

Í dag á Skógræktarfélag Íslands 80 ára afmæli, en það var stofnað þann 27. júní á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930.

Skógræktarfélagið vill þakka aðildarfélögunum og öðrum samstarfsaðilum, styrktaraðilum og öllum vinum og velunnurum fyrir samvinnu, stuðning og velvild í gegnum árin.

skogarstigur

Heiðmörk 60 ára: Afmælisdagskrá í Heiðmörk 19.-27. júní

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni af 60 ára afmæli Heiðmerkur stendur Skógræktarfélag Reykjavíkur fyrir fjölbreyttri afmælisdagskrá vikuna 19.-27. júní.

 

Dagur Staður Viðburður
19.06, kl. 16 Hjalladalur Gróðursetning og grillaðar pylsur á vegum Gámaþjónustunnar og Skógræktarfélags Reykjavíkur í Jólaskóginum.
19.06-20.06, kl. 10-17 Elliðavatn  Jurtir í skóginum. Kristbjörg Kristmundsdóttir og Hildur Hákonardóttir. Skráning í síma 861-1373
21.06, kl. 20  Elliðavatn Fuglaskoðun með Jakobi Sigurðssyni frá Fuglavernd
22.06, kl. 20  Elliðavatn  Söguganga á bökkum vatnsins með Helgu Sigmundsdóttur.
22.06, kl. 18-22  Gamli salur  Fjölskyldan tálgar í tré með Ólafi Oddssyni. Skráning í síma 863-0380.
23.06, kl. 20  Elliðavatn  Ókeypis veiði og fræðsla um vatnið með Jóni Kristjánssyni.
24.06, kl. 20  Efst á Heiðarvegi  Gönguferð með Ferðafélagi Íslands undir leiðsögn Auðar Kjartansdóttur, sem endar á Torgeirsstöðum.
24.06, kl. 18-22  Gamli salur  Fjölskyldan tálgar í tré Ólafi Oddssyni. Skráning í síma 863-0380.
25.06, kl. 14-17  Elliðavatn  Afmælisráðstefna (sjá nánar að neðan).
25.06, kl.  21-01  Dropinn við Furulund  Tónleikar með Kríu Brekkan, Sólveigu Öldu og Boybandi. Rúta frá Lækjartorgi.
26.06, kl. 13-16  Vígsluflöt  Fjölskylduhátíð (sjá nánar að neðan).
27.06  Elliðavatn  Veiðidagur fjölskyldunnar. Ókeypis í vatnið allan daginn.

 

Dagskrá ráðstefnu:
14:00 Formaður setur ráðstefnu.
14:20 Verðmætamat Heiðmerkur – Daði Már Kristófersson og Kristín Eiríksdóttir
14:30 Áhrif skógræktar á vatn og vatnsgæði – Bjarni Diðrik Sigurðsson
15:00 Hlé. Nýbakað kerfilsbrauð og silungur úr vatninu.
15:30 Deiliskipulag Heiðmerkur – Óskar Örn Gunnarsson og Yngvi Þór Loftsson.
16:10 Framtíðarsýn – Lena Rut Kjartansdóttir og Helga Sigmundsdóttir.
17:00 Ráðstefnuslit.

 

Dagskrá fjölskylduhátíðar:
13:00 Formaður flytur ávarp.
13:10 Borgarstjóri flytur ræðu og gróðursetur tré.
13:30 Rathlaupsfélagið Hekla stendur fyrir rathlaupi (orienteering)
Þrautabraut
Skógarleikir Helenu Óladóttur
Brasstríóið Masa
Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur
Lúpínuviðureign á milli fylkinga
Tréskurðarlistamenn að störfum

Gómsætar veitingar á góðu verði

Nánari upplýsingar á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur – www.heidmork.is

  

 

 

Gunnarshátíð í Haukadal

Með Ýmislegt

Í tilefni þess að Gunnar Freysteinsson skógfræðingur hefði orðið fertugur í ár boða Skógfræðingafélag Íslands og vinir og vandamenn til Gunnarshátíðar í Haukadal sunnudaginn 27. júní, en Gunnar lést af slysförum árið 1998. Allir velkomnir.

Dagskrá:

Kl. 11:00 Vinna og skemmtun
Safnast saman. Gróðursetning og umhirða í Gunnarslundi.

Kl. 13:00 Bara skemmtun

Setning og ávarp: Aðalsteinn Sigurgeirsson, formaður Skógfræðingafélags Íslands.

Hugvekja sjera Sigvalda Ásgeirssonar skógarprests

Skógarleikar (fyrir alla aldurshópa)

Samkomuslit: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Tónlist:  
Nikulás Magnússon, harmonikka.
Jón Ásgeir Jónsson, gítar.

Gestir eru beðnir um að hafa með sér trjá/greinaklippur, skóflur og fötur, sem og það nesti sem þeir vilja, en ketilkaffi verður á hlóðum á staðnum.

Allir eru hvattir til að hafa með sér trjáplöntu, helst af fágætri tegund, hvort sem er barr-eða lauftré.  Fyrir þá sem ekki dunda sér við ræktun á slíku heima hjá sér má benda á Gróðrarstöðina Nátthaga í Ölfusi, þar sem finna má ýmsar áhugaverðar tegundir. Ef keypt er planta þar endilega láta skrá þar að þetta sé fyrir Gunnarshátíð, þar sem það auðveldar allar merkingar á trjánum síðar meir að hafa allar tilhlýðilegar upplýsingar frá gróðrarstöðinni, auk þess sem það tryggir 10% afslátt. Gróðrarstöðin opnar kl. 9 á sunnudagsmorgninum.

gf

Gengið um skóga á Þingvöllum

Með Skógargöngur

Í þriðjudagskvöldgöngu 22.júní mun Hreinn Óskarsson skógarvörður fara um skógarlundi í austanverðum þjóðgarðinum. Rætt verður um skógrækt á Þingvöllum og stærstu samfelldu skógarlundir í þjóðgarðinum skoðaðir. Gönguferðin hefst í Vatnsviki klukkan 20.00.

Þar eru m.a. Vestur-Íslendinga reitur en reiturinn er í Hrafnagjárhallinum og var samþykktur af Þingvallanefnd árið 1952. Reiturinn er beggja vegna við gömlu þjóðleiðina yfir Hrafnagjá. Plantað í hann milli 1953 og 1958.

Stærsti einstaki skógarlundurinn innan þjóðgarðsins er Landsbankalundur en Landsbankinn gaf 100.000 krónur með því skilyrði að gróðursett yrði á Þingvöllum. Rúmlega 100.000 plöntur voru gróðursettar árið 1958 af ýmsum tegundum en mest af skógarfuru.

Þetta eru skógarlundir sem ekki margir skoða og en mjög fróðlegt að heimsækja.

(Frétt af heimasíðu Þingvallaþjóðgarðs – sjá hér).

Skógardagurinn mikli 2010

Með Ýmislegt

Hinn árlegi Skógardagur verður haldinn að venju í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi þar sem allir eru velkomnir að njóta skemmtunar í skóginum. Nú verður sú nýbreytni tekinn upp að hefja Skógardaginn mikla á föstudagskveldinu 25. júní með því að sauðfjárbændur grilla lambakjöt ofan í gesti og gangandi kl. 20:00 í Mörkinni.

Dagskrá laugardagsins 26. júní er nokkuð hefðbundin en þar má m.a. finna:
 
Skógarhlaup 14 km ræsing í Mörkinni kl. 12:00
Fjölskylduhlaup 4 km ræsing í Mörkinni kl 12:30

Formleg dagskrá hefst kl. 13:00 með Íslandsmóti í skógarhöggi 
Heilgrillað Egilsstaðanaut borið fram af skógarbændum.
Pylsur í hundraðavís
Lummur og ketilkaffi
Sumardrykkir í boði MS
Skógarþrautir
Pjakkur og Petra skemmta ungviðinu 
Kötturinn Klói mætir á svæðið
Hinn eini sanni Freyr Eyjólfsson skemmtir á sviðinu
Ásgrímur Ingi stjórnar samkomunni á borgfiska vísu.

Allir hjartanlega velkomnir að eyða góðri kveldstund og dagstund í skóginum.

ATH! Frítt verður á tjaldstæðin í Hallormsstaðaskógi aðfaranótt laugardagsins 26. júní

Skógarhlaupið

Hlaupið byrjar í Trjásafninu skammt innan við byggðina, skráning á staðnum og ræsing kl. 12:00. Hlaupið er á mjúkum skógarstígum í frábæru umhverfi skógarins.
Einnig er boðið upp á 4 km fjölskylduhlaup með ræsingu kl. 12:30. Verðlaun eru einstakir útskornir gripir úr íslensku birki.

skogardagurinn

Erindreki Skógræktarfélags Íslands á ferðinni í sumar

Með Ýmislegt

Í sumar mun erindreki frá Skógræktarfélagi Íslands (SÍ) verða á ferðinni og heimsækja skógræktarfélög víða um land til að efla tengsl SÍ við félögin, kynna sér helstu viðfangsefni og vandamál þeirra og veita þeim margvíslega aðstoð og hvatningu.

Erindrekinn sem um ræðir er ungur maður að nafni Jón Ásgeir Jónsson.  Hann er nemandi í líffræði við Háskóla Íslands og stefnir á skógræktarnám í framhaldinu. Jón Ásgeir  hefur verið „sumarstrákur“ hjá félaginu undanfarin tvö ár (reyndar teygst yfir í „hauststrákur“ líka) og fengist við hin ýmsu störf innan félagsins á þeim tíma, þannig að hann hefur kynnst starfsemi þess vel. Þess má geta að hann er einn aðal hvatamaður að stofnun Gróðurvina Háskóla Íslands, en markmið þess félagsskapar er að auka gróður á vel völdum stöðum á háskólasvæðinu og hafa fyrstu trén þegar verið sett niður við Öskju.

jaj
Jón Ásgeir við vinnu í jólaskógi Skógræktarfélags Íslands í Brynjudal (Mynd: EG).