Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

maí 2010

Nýr samningur um Hellisskóg

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nýr samningur Sveitarfélagsins Árbogar og Skógræktarfélags Selfoss var undirritaður í s.l. viku í blíðskaparveðri í Hellisskógi. Samningurinn kemur í stað eldri samnings um Hellisskóg og með honum er Skógræktarfélagi Selfoss falin öll umsjón með svæðinu, auk þess sem félagið sér um allar framkvæmdir í skóginum.
Lögð er áhersla á að á svæðinu verði byggt upp öflugt og fjölbreytt útivistarsvæði fyrir íbúa í Árborg og gesti og að aðgengi verði sem best.

Skógurinn er friðaður fyrir ágangi búfjár og lausaganga hunda er bönnuð þar.

Frétt af heimasíðu Árborgar – www.arborg.is

Aðalfundur Landverndar

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Landverndar verður haldinn að Nauthóli við Nauthólsvík miðvikudaginn 26. maí. Húsið opnar kl. 14.30 og hefst fundur á almennum aðalfundarstörfum kl. 15.00.

Stjórn og starfsmenn Landverndar vinna um þessar mundir að stefnumótun fyrir samtökin sem miðar að því að skerpa áherslur og efla náttúruvernd á Íslandi. Við viljum gjarnan fá félaga og aðildarfélög til liðs við okkur í þessari vinnu og hefur í þeim tilgangi verið skipulagt svokallað framtíðarþing sem hefst að loknum aðalfundi kl. 16.30.

Dagskrá lýkur kl. 18.00 með afhendingu Bláfánans við Ylströndina í Nauthólsvík.

Sjá nánar á heimasíðu Landverndar (hér).

Gróðursetning Grænu bylgjunnar

Með Ýmislegt

Föstudaginn 21. maí komu börn frá grunnskólum á öllu höfuðborgarsvæðinu saman innan síns sveitarfélags til að gróðursetja tré undir hatti Grænu bylgjunnar (Green Wave), sem er alþjóðlegt verkefni sem Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika stendur fyrir í tengslum við dag líffræðilegs fjölbreytileika 22. maí. Þennan dag gróðursetja börn um víða veröld tré og mynda þannig Græna bylgju um allan heiminn, en viðburðinum er ætlað að vekja athygli á hugtakinu líffræðilegur fjölbreytileiki og leyfa skólabörnum að hafa áhrif, eitt tré og eitt skref í einu.

Skógræktarfélag Íslands, Yrkjusjóður – sjóður æskunnar til ræktunar landsins – og umhverfisráðuneytið efndu til þessa viðburðar á höfuðborgarsvæðinu, en þar var gróðursett innan hvers sveitarfélags – við Varmárskóla í Mosfellsbæ, við Gufunesbæ í Reykjavík, við Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, við skógarreit við Tungu (rétt hjá Lindaskóla) í Kópavogi, á Smalaholti í Garðabæ, á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og við Álftanesskóla á Álftanesi. Tókst þetta vel til, en gróðursetjarar voru á öllum aldri, frá fyrsta upp í tíunda bekk.

Fjölmennasti viðburðurinn var í Reykjavík, enda flestir skólar innan þess sveitarfélags, og mættu þangað Vigdís Finnbogadóttir, fyrir hönd Yrkjusjóðs og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Auk þess mættu nemar (fullorðnir) í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og tóku þátt í að gróðursetja með börnunum.

Gróðursetningin er komin á heimasíðu Grænu bylgjunnar (sjá hér).

gb-rvk-1

Vigdís Finnbogadóttir, ásamt nokkrum hressum krökkum við gróðursetningu við Gufunesbæ (Mynd: BJ).

gb-hf

Gróðursetning á Víðistaðatúni í Hafnarfirði (Mynd: RF).

gb-rvk-2

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra (3. f.v.) ásamt nemum í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna (Mynd: BJ).

gb-al

Hressir krakkar í 5. bekk í Álftanesskóla við trén tvö sem sett voru niður (Mynd: RF).

Græna bylgjan 21. maí

Með Ýmislegt

Græna bylgjan (Green Wave) er alþjóðlegt verkefni sem Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika stendur fyrir í tengslum við dag líffræðilegs fjölbreytileika 22. maí. Þann dag, eða næsta virka dag við 22. maí, sem í ár er föstudagurinn 21. maí, gróðursetja skólar um víða veröld tré, til að vekja athygli á hugtakinu líffræðilegur fjölbreytileiki og leyfa skólabörnum að hafa áhrif, eitt tré, eitt skref í einu.
 
Í tilefni árs líffræðilegs fjölbreytileika  ákváðu Umhverfisráðuneytið, Skógræktarfélag Íslands og Yrkjusjóður – sjóður æskunnar til ræktunar landsins, að efna til viðburða undir hatti þessa verkefnis hér á landi, í fyrsta skipti.  Var fulltrúum frá öllum skólum á höfuðborgarsvæðinu boðið að koma saman í sínu sveitarfélagi og setja niður trjáplöntur föstudaginn 21. maí, í tilefni þessa dags. Hafa nú þegar skólar í öllum sveitarfélögunum þegið boðið og verða því sjö gróðursetningarviðburðir – við Varmárskóla í Mosfellsbæ, við Gufunesbæ í Reykjavík, við Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, við skógarreit við Tungu (enda Galtalindar) í Kópavogi, á Smalaholti í Garðabæ, á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og við Álftanesskóla á Álftanesi.

Nánar má lesa um Grænu bylgjuna á heimasíðu hennar.

Trjáræktarstöðin Þöll opnar 15. maí

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Trjáræktarstöðin Þöll opnar aftur eftir vetrardvala laugardaginn 15. maí. Þöll hefur á boðstólum skrautrunna, garðtré, berjarunna, rósir, skógarplöntur, limgerðisplöntur, klifurrunna og margt fleira. Nær eingöngu er um eigin framleiðslu að ræða.

Þöll verður opin frá kl. 08.00 – 18.00 virka daga nema föstudaga er opið til kl. 20.00. Einnig er opið laugardaga frá kl. 10.00 – 18.00. Starfsfólk Þallar veitir ráðgjöf varðandi trjá- og skógrækt.

Þöll er við Kaldárselsveginn skammt frá Íshestum. Síminn er 555-6455. Veittur er 15% afsláttur af plöntum til félaga í skógræktarfélögum og Garðyrkjufélagi Íslands.

Nánari upplýsingar um Þöll og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar má nálgast á www.skog.is/skhafn/

thollopnun

Þátttakendur á ráðstefnu um lýðheilsu í skógum skoða Trjáræktarstöðina síðast liðið haust. Eins og sjá má er ýmislegt í boði (Mynd: RF).

 

 

 

Fuglaverndarfélag Íslands: Fuglaskoðun og vormarkaður við Elliðavatn

Með Ýmislegt

Laugardaginn 8. maí verður fuglaskoðun við Elliðavatn í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum. Lagt verður af stað frá Elliðavatnsbæ stundvíslega kl. 14:00 og munu Edward Rickson og Jakob Sigurðsson leiða gönguna.

Einnig mun Fuglavernd taka þátt í vormarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur helgina 8.-9. apríl og verður t.d. garðfuglabæklingurinn þar til sölu.

Nánar á vefjum Fuglaverndar og Skógræktarfélags Reykjavíkur.