Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

apríl 2010

Reykjavíkur Akademían: Loftslagsbreytingar á mannamáli

Með Fundir og ráðstefnur

Reykjavíkur Akademían stendur fyrir málstofu loftslagsbreytingar í hnattrænu samhengi og áhrif þeirra á búsetu, atvinnulíf og menningu. Málstofan er haldin  í húsakynnum Reykjavíkur Akademíunnar á Hringbraut 121, 4. hæð, laugardaginn 10. apríl, kl. 13 – 15:30
 
Dagskrá:

Veðurfarsbreytingar á Íslandi Halldór Björnsson veðurfræðingur

„Hún heitir móðir jörð og hún er með hita“ – um upplifanir og útskýringu frumbyggja Kanada á loftslagsbreytingum Björk Bjarnadóttir umhverfisþjóðfræðingur

Loftslagsbreytingar í norðri – Sundrun eða samvinna? Auðlindadeilur og umhverfisstjórnmál á óvissutímum Auður H. Ingólfsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur

Siðleysi á heimsmælikvarða Ólafur Páll Jónsson heimspekingur

Fundarstjóri verður Sólveig Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Reykjavíkur Akademíunnar.

Heitt á könnunni og allir velkomnir.

Nánari upplýsingar veita Einar Ó. Þorleifsson (s. 857-2161) og Guðrún Hallgrímsdóttir (s. 899-7783).

Sérlög um Heiðmörk?

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Á aðalfundi Skógræktarfélags Reykjavíkur nýverið var samþykkt að beina því til umhverfisráðherra að hann beiti sér fyrir lagasetningu um Heiðmörk, tilgang hennar og markmið, í samstarfi við eigendur og umsjónaraðila útivistarsvæðisins í Heiðmörk.

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur, haldinn 7. apríl 2010, samþykkir eftirfarandi:

Heiðmörk er helsta útivistarsvæði höfuðborgarinnar og nágrannabyggðarlaga. Aðdráttarafl þess eykst í samæmi við aukna gróðursæld þar og á hverju ári fjölgar þeim sem þangað sækja. Kannanir sýna að árlega kemur fleira fólk í Heiðmörk en sækir heim sjálfan þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Þau atvik hafa orðið á allra síðustu árum sem benda eindregið til þess að framtíð þessarar náttúruperlu, sem útivistarsvæði fyrir almenning, sé ekki tryggð. Við því þarf að bregðast með þeim hætti sem dugir. Fundurinn samþykkir að félagið beiti sér fyrir því að sett verði sérstök lög um málefni Heiðmerkur með norska löggjöf um Oslóarmörk sem fyrirmynd. Jafnframt samþykkir fundurinn að beina því til umhverfisráðherra að taka frumkvæði til að ná þessu markmiði og leiða þá til samstarfs sem helst eiga hagsmuna að gæta á svæðinu, til að sem sterkust samstaða geti náðst um málið.

Samþykkt samhljóða.

Hægt er að skoða lögin um Oslomarka á vefnum, einnig má finna almennar upplýsingar um Oslomarka á heimasíðu svæðisins.

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur 7. apríl

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur verður haldinn miðvikudaginn 7. apríl kl. 20:00 í ráðstefnusal Orkuveitunnar að Bæjarhálsi 1.

Dagskrá:
1. Skýrslur formanns og framkvæmdastjóra
2. Reikningar félagsins
3. Lagabreytingar
4. Kosning stjórnar
5. Kosning fulltrúa á aðalfund SÍ
6. Önnur mál
Kaffihlé
7. Fyrirlestur: Verðmætamat Heiðmerkur

Daði Már Kristófersson, lektor við Háskóla Íslands, ásamt Kristínu Eiríksdóttur, doktorsnema við Háskóla Íslands, halda fyrirlestur um verðmætamat Heiðmerkur.

Allir velkomnir.

Opið hús skógræktarfélaganna: Kolefnisbinding og skógrækt

Með Fræðsla

Fimmta Opna hús ársins 2010 verður þriðjudagskvöldið 6. apríl og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, brautarstjóri Skógfræði og landgræðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands, mun fjalla um kolefnisbindingu og skógrækt. Fjallað verður um kolefnishringrás jarðar og mikilvægi skóga og skógræktar í henni. Hverjir eru möguleikarnir að vinna á móti síhækkandi styrk gróðurhúsalofttegunda með skógrækt og öðrum breytingum á landnýtingu? Mikilvægi skógræktar og annarrar landnýtingar í mótvægisaðgerðum íslenskra stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum. Einnig verður gefið yfirlit yfir íslenskar rannsóknir á kolefnisbindingu með skógrækt og stöðu þekkingar á þeim málum í dag.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

oh-kolefnisbinding
Það eru ekki bara við mannfólki sem losar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið – stundum sér náttúran um það sjálf, eins og í gosinu á Fimmvörðuhálsi (Mynd: BJ).