Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2009

Skógræktarfélag Garðabæjar: Myndasýning frá Noregsferð

Með Fræðsla

Dagana 3.-9. september síðast liðinn gekkst Skógræktarfélag  Íslands fyrir ferð til Noregs þar sem ferðast var um skóglendi Noregs frá Bergen til Osló. Nokkrir Garðbæingar voru með í för og verða sýndar myndir úr þessari ferð næst komandi fimmtudagskvöld 29. október 2009 í Garðabergi, aðkoma austan megin við Garðatorg.

Myndakvöldið hefst kl. 20:00.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

 

myndasyninggardabaer
(Kort: www.ja.is)

Næst hæsta eik landsins?

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrir stuttu birtist hér frétt um hávaxna eik í garði við Háagerði 11 í Reykjavík.  Í kjölfarið á því auglýsti Skógræktarfélag Reykjavíkur eftir upplýsingum um fleiri stæðilegar eikur hér á landi og barst félaginu ábending um myndarlega eik á Akureyri, í garði við Hafnarstræti 63, frá Bergsveini Þórssyni. Sú eik reyndist 5,35 m á hæð. Í spjalli við Jón Hilmar Magnússon, eiganda eikarinnar, kom fram að hann fékk árið 1978 akörn frá Hannover í Þýskalandi, tínd í skógi skammt utan borgarinnar, og kom til af því eikinni með þessum góða árangri.

eik-akureyri
(Mynd: Bergsveinn Þórsson)

Gróska í garðyrkju: Afmælisráðstefna Garðyrkjuskólans á Reykjum

Með Fundir og ráðstefnur

Ráðstefnan verður haldinn að Reykjum í Ölfusi 23. október næst komandi.

Fundarstjóri:  Björgvin Örn Eggertsson

 

Dagskrá

13:00 – 13:10

Setning ráðstefnunnar
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskólans

13:10 – 13:40

Garðyrkjumenntun á Reykjum í 70 ár
Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Reykjum

13:40 – 14:05

Rannsóknir og tilraunir í garðyrkju
Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda

14:05 – 14:30

Náttúran beisluð í görðum
Þorkell Gunnarsson, formaður Félags skrúðgarðyrkjumeistara

14:30 – 14:50

Kaffihlé

14:50 – 15:20

Garðurinn hennar ömmu, mömmu, minn
Ásta Camilla Gylfadóttir, landslagsarkitekt

15:20 – 15:50

Íslensk garðrækt – á mörkum hins ótrúlega
Kristinn H. Þorsteinsson, garðyrkjufræðingur

15:50 – 16:15

Að sjá skóginn fyrir trjám
Björn Bjarndal Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga

16:15 – 16:30

Samantekt og ráðstefnuslit
Björgvin Örn Eggertsson, fundarstjóri

16:30 – 18:00

Afmæliskaffi að hætti Reykjafólks

Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.  Vinsamlegast skráið þátttöku fyrir 20. október í síma 433-5303 eða á netfangið ingibjorg (hjá) lbhi.is.

Aðalfundur samtakanna Umhverfi og vellíðan

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur samtakanna Umhverfi og vellíðan verður haldinn miðvikudaginn 21. október í Gerðubergi kl. 19:30.


Fundarefni
1.      Skýrsla formanns um störf félagsins frá stofnfundi þann 5. mars sl.
2.      Skógar fyrir líkama og sál. Erindi flutt af  Sherry Curl, skógræktarráðunaut Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum
3.      Aðferðafræði til að meta gæði skipulagðra útivistarsvæða innan þéttbýlis. Erindi flutt af Kristbjörgu Traustadóttur, mastersnema í umhverfissálarfræði, SLU Alnarp, Svíþjóð.
4.      Kosning í stjórn og varastjórn
5.      Kosning endurskoðanda
6.      Önnur mál

Samantekt úr erindi Sherry Curl – Skógar fyrir líkama og sál.
Þrátt fyrir bætt heilbrigðiskerfi og lífskjör síðustu áratugi hefur orðið aukning á fjölda þeirra sem þjást af sjúkdómum tengdum lífsstíl, mengun og andlegu álagi í flestum ef ekki öllum vestrænum ríkjum. Þó að mikilvægi þess að njóta náttúrulegs umhverfis fyrir lýðheilsu hafi lengi verið haldið fram, þá hefur þýðing þess fyrir þjóðarbúið í formi efnahags og aukinna lífsgæða verið vanmetin. Í fyrirlestrinum er farið yfir umfang vandans og mögulega notkun útivistar bæði til forvarnar og sem leið til að brúa bilið á milli þess sem heilbrigðiskerfið býður upp á og að einstaklingar geti náð góðri félagslegri virkni.

Samantekt úr erindi Kristbjargar Traustadóttur – Aðferðafræði til að meta gæði skipulagðra útivistarsvæða innan þéttbýlis.
Rannsóknir sýna að ákveðnir þættir í umhverfinu hafa áhrif á bætta líðan fólks. Rannsóknir hafa einnig sýnt að það eru átta rýmiseinkenni sem eru mikilvægust til að garðar eða útivistarsvæði virki sem best á notendur.
Til að meta gæði garðanna innan borgarmarkanna er leitað eftir þessum átta rýmiseinkennum (karaktereinkennum). Samsetningin segir til um gæðin og hversu líklegir garðarnir eru til að virka heilnæmir. Margbreytileiki laðar að notendur og því er mikilvægt að finna sem flesta eða alla þá þætti sem leitað er eftir hvort sem notandinn sækist eftir því að vera í ró og friði eða sjá og vera í margmenni.
 

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til audur(hjá)rit.is.  Yndisleg kona bakar kleinur sem bornar verða með kaffinu í hléinu og stjórnin vill tryggja að nóg verði af nýbökuðum kleinum.
 
Samtökin eru með síðu á Fésinu (Facebook), nafnið á henni er Umhverfi og vellíðan. Þar eru ýmsar upplýsingar um starfsemina og frásagnir af tiltækjum félagins í sumar ásamt myndum.

umhverfivellidan

 

Skógræktarfélag Skilmannahrepps 70 ára

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Skilmannahrepps fagnar 70 ára afmæli á árinu. Af því tilefni var boðið til afmæliskaffis sunnudaginn 18. október í félagsheimilinu Fannahlíð.

Var vel mætt í afmælisveisluna, en við þetta tækifæri voru Guðjón Guðmundsson frá Arkarlæk og Oddur Sigurðsson frá Litlu-Fellsöxl, báðir fyrrverandi formenn félagsins, heiðraðir. Einnig hélt formaður félagsins, Bjarni O.V. Þóroddsson, tölu, þar sem hann fór yfir megin þætti í sögu félagsins og helstu verkefni þess nú um stundir og fylgir ávarp Bjarna hér á eftir.

afmskskil1
Bjarni Þóroddsson, formaður Skógræktarfélags Skilmannahrepps, ásamt nýjum heiðursfélögum félagsins, Oddi Sigurðssyni frá Litlu-Fellsöxl (t.v.) og Guðjóni Guðmundssyni frá Arkarlæk (Mynd: BJ).

Örlítið ágrip af sögu félagsins
Félagið var stofnað 17. desember 1939 á Litlu-Fellsöxl og hét þá Samvinnufélagið Hreyfill. Stofnendur voru: Árni Runólfsson Gröf, Jóhannes Leifsson Galtarvík, Kristmundur Þorsteinsson Klafastöðum, Sigmundur Leifsson Galtarvík, Sigurgeir Jóhannsson Litlu-Fellsöxl og Valgeir Runólfsson Gröf.  Þetta voru ungir eldhugar, sem voru áhugasamir um félagsmál. Í fundargerð stendur: Tilgangur félagsins er að stuðla að framförum og bæta félagslíf.

Félagsmönnum fjölgaði ört fyrstu árin og nafni félagsins var fljótlega breytt í Skógræktarfélag Skilmannahrepps. Þar með var skógrækt orðin eitt af aðal markmiðum félagsins. Í stefnuskrá félagsins segir svo:
1. Tilgangur félagsins og markmið, er að efla félagsskap í hreppnum og starfa að ýmsum þeim málum, sem til gagns og menningar geta talist.
2. Fyrst og fremst tekur félagið skógrækt til meðferðar, og ákveður að girða einn eða fleiri bletti, sem það getur fengið til umráða. Félagið vill hvetja menn til að rækta trjágróður við heimili sín.

Félagsstarf
Á fyrsta heila ári félagsins árið 1940 voru haldnir níu fundir. Voru þeir haldnir á heimilum félagsmanna til skiptis. Voru þar rædd ýmis framfaramál og kosnar nefndir til ýmissa starfa. Til dæmis var kosin nefnd til að finna land til skógræktar, önnur nefnd var kosin til að byggja danspall, og enn önnur til að undirbúa lög félagsins o.fl. Stofnað var blað, sem félagsmenn áttu að skrifa í. Það varð skammlíft.

Félagið stóð fyrir skemmtunum á ýmsum stöðum; Mötuneyti Sláturfélagsins við Laxá, Sjónarhóli í Leirársveit og víðar. Leikrit voru sett upp í Fellsaxlarkoti, Bekansstöðum og víðar. Byggður var danspallur og tjaldað yfir til dansleikjahalds á sumrin. Fundir voru haldnir á heimilum félagsmanna. Skemmtiferðir voru oft farnar á sumrin og urðu sumar minnisstæðari en aðrar. Í fundargögnum er minnst á eftirminnilega ferð í Húnavatnssýslu og aðra vestur í Dali.

Eftir að Félagsheimilið var byggt fluttust auðvitað allar samkomur þangað: dansleikir, þorrablót, árshátíðir og spilakvöld, fundir og sett upp leikrit. Samstarf var talsvert við kvenfélagið Björk um skemmtanaheld og gekk það vel.

Á tímabili lagðist félagsstarf að mestu niður í félaginu, en fór svo rólega á stað aftur. Er líklegt að það tengist fráfalls eins af stofnendum félagsins, Sigurgeirs Jóhannssonar, sem var mjög áhugasamur og drífandi í félaginu. Skemmtanahald hefur breyst og minnkað verulega. Skemmtanir hættu að vera gróðalind fyrir félagið vegna kostnaðar sem fór stöðugt vaxandi. Síðustu ár hafa dansleikir verið fátíðir, enda er margt skemmtana í boði á almennum markaði af ýmsu tagi.

Samkomuhús
Strax í upphafi var talað um að byggja samkomuhús. Og voru ýmsar hugmyndir uppi um hvernig ætti að fjármagna það. Til dæmis var farið í að færa upp mó á Vallanesi og selja.

Það dróst þó nokkuð að hafist yrði handa við framkvæmdir. Var það aðallega vegna fjárskorts. Það var svo á miðju ári 1952 að grafið var fyrir grunni hússins. Síðan gengur hægt og litlar upplýsingar skráðar um framvindu verksins þangað til 1959. Húsið er þá komið undir þak fyrri hluta árs og er unnið mikið í því það árið. Þá er lögð vatnslögn inn í húsið og grafið fyrir vatnsbóli ofan við veg. Í nóvember er unnið við múrverk og rafmagn lagt í húsið og rafmagnsheimtaug lögð inn. Einnig er farið að mála í lok árs 1959. Þann 28. desember 1959 er haldin jólatrésskemmtun í fyrsta sinn í húsinu. Fyrsta þorrablótið er svo haldið í húsinu 23.janúar 1960. Enn er unnið í húsinu 1960 við smíði, lagfæringar og hreingerningar. Vert er að geta þess að kvenfélagið vann einnig talsvert við byggingu hússins, einkum eftir að það komst undir þak. Samið var um skiptingu eignarhalds á húsinu og var það þannig; Skógræktarfélagið 25%, kvenfélagið 25% og hreppurinn 50%.

Húsið var stækkað 1982 í núverandi stærð. Þá sá hreppurinn alfarið um að fjármagna þá framkvæmd. Þar með minnkaði eignarhlutur félaganna verulega. Síðan keypti Hvalfjarðarsveit hlut félaganna fyrir tveim árum og á nú húsið allt.

Skógræktin

Fyrsta landspilda til skógræktar var fengin 1940. Magnús Símonarson á Stóru-Fellsöxl lagði til spildu úr landi sínu undir skógrækt í kjölfar þess að Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, gerði úttekt á landkostum í sveitinni. Girt var í kringum landið og handgrafnir skurðir á tvo vegu til að þurrka það, því þetta var blautt land og er enn. Byrjað var á að herfa hluta landsins og sá í það birkifræi. Síðar voru fengnar plöntur. Aðallega birki. Eitthvað af reyni.

Árið 1963 var fengið meira land í framhaldi af því sem fyrir var fengið. Var þá stækkað til vesturs að Brunná, sem er á landamerkjum Litlu-Fellsaxlar, og í austur að Sellæk hér rétt fyrir vestan húsið. Um það er gerður samningur undirritaður 20. maí 1964.

Aftur var stækkað 1983. Nautagirðingin fyrir neðan Selhæð var fengin niður að gamla Akrafjallsveginum. Kaffiskúrinn Furuhlíð var fenginn 1986. Var þetta vinnuskúr frá Akri, keyptur með fjárstyrk frá hreppnum.

Meira land var fengið 10 árum síðar, austan Akrafjallsvegar, þar sem er Álfholt. Síðasta stækkun var 2003, sem nær upp á brekkubrún í norðaustur frá Fannahlíð og að þjóðvegi 1. Búið er að gróðursetja í það að mestu. Núverandi svæði í umsjá félagsins er 75 hektarar. Er það samfellt land, sem er þó skorið sundur af gamla Akrafjallsveginum.

Búið er að planta um það  bil 170 þúsund plöntum í svæðið síðan 1978. Lengra aftur nær ekki okkar listi yfir gróðursetningar. Þó má ætla að þessi 40 ár þar fyrir framan hafi verið plantað a.ð minnsta kosti 30.000 plöntum. Einnig var gerður samningur um gróðursetningu í Melahverfi kringum byggðina þar.

Skilmannahreppur hefur stutt vel við félagið, bæði með útvegun lands, og með beinum fjárstuðningi og velvild. Nýr sameinaður hreppur, Hvalfjarðarsveit, hefur einnig verið okkur velviljaður og meðal annars ákveðið að leiguland það sem við höfum til umráða verði ekki tekið undir annað eða selt. Erum við þakklát fyrir það.

Framtíð félagsins er óræð. Meðalaldur er hár og fáir nýliðar koma inn. En skógurinn vex og það fjölgar heimsóknum í skóginn, sem er hið besta mál. Til þess var leikurinn gerður. Það er gaman að sjá hvaða aðdráttarafl skógur hefur. Það er notalegt að ganga í rólegheitum um skógarstíga í góðu veðri í skjóli trjánna. Þetta er kallað yndisskógur eða útivistarskógur og er öllum frjálst að ganga um hann með því skilyrði að vel sé gengið um. Búið er að leggja töluvert af stígum um svæðið. Er þeim haldið við með því að slá þá um þrisvar á sumri. Guðjón hefur séð um það.

Reynt hefur verið að hafa nokkra fjölbreytni í vali trjátegunda, þótt ákveðnar tegundir séu ríkjandi. Einnig er tekið tillit til jarðvegs við val á trjám. Við höfum notið aðstoðar sérfræðinga frá Skógræktarfélagi Íslands við skipulagningu og val á trjám.

Það fækkar heldur þeim félögum, sem koma til að vinna við gróðursetningu og önnur störf, en þörfin á vinnuafli eykst að sama skapi. Nú er svo komið að helst þyrfti að vera þarna með starfsmann í fullu starfi yfir sumarið til að sinna nauðsynlegri umhirðu um svæðið. Auk þess þarf að kaupa að vinnuafl í ýmis störf. Það þarf að grisja, leggja stíga, slá grasflatir, merkja stíga, setja upp bekki o.fl. Gott er að geta fengið ungt fólk úr sveitafélaginu í sumarvinnu. Það gekk nokkuð vel í atvinnuátakinu í sumar. Vonandi verður eitthvað framhald af því.

Þegar ég kom inn í félagið fyrir tæpum 30 árum fannst mér að þetta væri dálítið lokað samfélag fyrir nokkra sérvitringa. Menn vildu ógjarnan opna það mikið. Það gætu komið of margir og spillt gróðrinum. En það hefur ýmislegt breyst síðan og menn orðið víðsýnni. Með því að hafa gott stígakerfi er hægt að koma í veg fyrir að gróðri sé spillt. Ég hef alltaf litið svo á að við værum að búa til útivistarsvæði sem allir mættu ganga um og njóta. Enda hefur það gerst að fólki hefur fjölgað, sem kemur hér og fær sér gönguferð. Það hafa ýmsir hópar komið og gengið um skóginn og verið ánægðir með. Hér hefur komið víkingasveit í tvígang (ekki frá lögreglunni) og verið með leiki á svæðinu. Eldri borgarar hafa komið hér nokkur undanfarin ár og grillað og skemmt sér. Skógarbændur á Vesturlandi komu hér í haust og gengu um skóginn. Voru þeir ánægðir með heimsóknina. Svo hef ég alltaf gaman af að ganga með fólki og sýna því skóginn og montast af gróðrinum. En það er ekki bara okkur að þakka hvað skógurinn vex vel. Við sem vinnum hérna við gróðursetningu höfum orðið vör við það, að það er afar veðurgott á þessu svæði, enda sést það á því hvað tré eru beinvaxin og vaxa mikið á hverju ári. Það er ef til vill ekki að ástæðulausu að Hákon Bjarnason mælti með þessu landi til skógræktar.

Ég hefði viljað sjá þennan skógarreit stækka í báðar áttir meðfram Akrafjalli og sameinast skóginum hans Odds hér á Litlu-Fellsöxl, sem er orðinn talsvert stór. Þá verður þetta orðinn myndarlegur skógur, sem væri nytjaskógur og yndisskógur í bland.

Kannski verður hér einhvern tíma svokallaður „Opinn skógur“, en það hefur ekki þótt tímabært enn að sækja um það.

Leit að hæstu eik landsins

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Eik er sjaldgæf tegund og hefur lengi þótt of hitakær til að geta þrifist hér landi. Því vakti það nokkra furðu starfsmanna Skógræktarfélags Reykjavíkur, þegar þeim var bent á 6,30 metra háa eik í garði við Háagerði 11 hér í borg. Var eikin mæld og skoðuð, kannaður uppruni hennar og saga og ákveðið að efna til leitar að hæstu eik landsins eða einhverri sem gæti þá hugsanlega skákað Háagerðiseikinni.

Eikin í Háagerði var gróðursett 1982 og hafði þá verið í dvala í kjallara hússins í heilan áratug! Upphaflega var hún sótt í skóg utan við borgina Vaxjö í Svíþjóð. Þetta er að öllum líkindum tegund sem Svíar kalla sumareik (Quercus robur).Vaxjö er í Smálöndunum og álíka norðarlega og miðhluti Skotlands.


Þeir sem vita um stæðilegar eikur hér á landi eru vinsamlegast beðnir um að senda Skógræktarfélagi Reykjavíkur upplýsingar um þær. Tengiliður: kristjan(hjá)skograekt.is, sími 856-0058.

haestaeikin
Eikin í Háagerði 11 (Mynd: RF).

Stefnumót um loftslagsbreytingar, þróun og öryggi

Með Fundir og ráðstefnur

Á 15. Stefnumóti umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmunar fróða verður fjallað um tengsl milli hnattrænna loftslagsbreytinga, sjálfbærrar þróunar og öryggismála. Einnig verður rætt um alþjóðlegar samningaviðræður um loftslagsmál í aðdraganda Kaupmannahafnarfundarins.

Það er dr. Adil Najam, framkvæmdastjóri Pardee Center við Boston University, sem flytur erindið Loftslagsbreytingar, þróun og öryggi. Dr. Adil Najam er einn af aðalhöfundum 3. og 4. skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Þá var hann nýlega skipaður í Þróunarnefnd Sameinuðu þjóðanna (CDP), tilnefndur af Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Stefnumótið er haldið í samstarfi við Norræna húsið og námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Það fer fram í fundarsal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 17. október kl. 11:00 -13:00.

Stefnumótin eru opnir fundir um umhverfismál sem efst eru á baugi hverju sinni.

Allir velkomnir!

15stefnumot

Með hlýnandi veðurfari eru ýmsar plöntur farnar að dafna ágætlega hérlendis sem þrifust síður áður fyrr, til dæmis eplatré, eins og sjá má á þessari mynd af girnilegum og vel þroskuðum íslenskum eplum (Mynd: RF).

Árstíðaskipti í skóginum

Með Ýmislegt

Veturinn minnti rækilega á sig á höfuðborgarsvæðinu núna í byrjun vikunnar, með hvítri jörð og kulda. Eins og sjá má á myndunum, sem teknar eru í Heiðmörk með um tveggja vikna millibili, býður skógurinn alltaf upp á fallegt umhverfi, óháð árstíma. Frá fallegum haustlitum um miðjan september, til snævi þakinna blaða og greina í byrjun október.

arstidaskipti2

Hinn sígræni litur barrtrjánna kallast skemmtilega á við rauða og gula hausttóna laufviðarins (Mynd: RF).

arstidaskipti

Enn má sjá glitta í haustliti laufanna undir snjónum, sem skapar skemmtilega stemningu (Mynd: Kristján Bjarnason).

Vinnudagar á Fossá 10. og 17. október

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 10. október verður haldinn vinnudagur á Fossá í Hvalfirði. Haldið verður áfram að taka tré, sem féllu til við grisjun, út úr skóginum niður á stíginn.
Miðað er við að vera komin á Fossá um hálf tíu. Allar vinnufúsar hendur eru velkomnar.

Laugardaginn 17. október verður einnig vinnudagur og er búið að fá vagn sem nota má til að taka trén af stígnum og flytja þau upp að húsinu.

Gott væri að sameinast í bíla eftir því sem mögulegt er.

Bragi Michaelsson
formaður Skógræktarfélags Kópavogs
bragimich (hjá) simnet.is, sími 8982766.

Eiríkur Páll Eiríksson
formaður Fossár

 

 

Haustkransar á Elliðavatni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Lærðu að binda þinn eigin haustkrans á útidyrahurðina eða stofuborðið úr reyniberjum, lyngi, mosa eða öðrum efnum!

Auður Árnadóttir blómaskreytir heldur námskeið á Elliðavatni í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur mánudaginn 5. október klukkan 19-22. Allir velkomnir! 

Verð: 5000 kr. Efni er innifalið en ef þátttakendur vilja koma með reyniber eða annað efni er það velkomið. Vinsamlega koma með litlar garðklippur ef þið eigið. Skráning hjá Ástu í síma 844-8588 eða astabardar(hjá)simnet.is.

haustkransar