Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Alcoa Foundation styrkir gróðursetningu

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands fékk árið 2020 styrk úr styrktarsjóði Alcoa (Alcoa Foundation) til gróðursetningar tíu þúsund plantna á Eskifirði og Úlfljótsvatni árið 2021. Er það verkefni framhald fyrri verkefna sem unnið var fyrir styrki úr samstarfi Alcoa og American Forests.

Sjálfboðaliðahópur Skógræktarfélags Íslands, ásamt verkstjóra, var viku á Eskifirði nú í byrjun september og gróðursetti um helming plantnanna, ásamt því að sinna öðrum verkum fyrir félagið á Eskifirði. Hinn helmingurinn verður svo settur niður á Úlfljótsvatni.

Hópurinn frá Skógræktarfélagi Íslands.

Tré ársins 2021

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Lambhaga, útnefnir hegg (Prunus padus) í gömlu gróðrarstöðinni við Rauðavatn í Reykjavík, sem Tré ársins 2021, við hátíðlega athöfn miðvikudaginn  25. ágúst  kl. 16:00.

Dagskrá:

1. Setning dagskrár
    Tónlist: Erna Ómarsdóttir og Rakel Björt Helgadóttir
2. Ávarp – Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
3. Afhending á viðurkenningarskjali. Dagur Eggertsson borgarstjóri veitir því viðtöku
4. Ávarp – Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur
5. Mælingar á trénu
6. Veitingar í boði Lambhaga

Allir velkomnir!

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa.

 

Arion banki styður áfram við verkefni Skógræktarfélags Íslands

Með Fréttir

Nýlega undirrituðu Arion banki og Skógræktarfélag Íslands samning vegna áframhaldandi stuðnings bankans við félagið. Styrkurinn, sem er til þriggja ára, verður nýttur til að fjármagna verkefnið Skógarvist, skógargátt og lýðheilsa, sem er ætlað að hvetja til útivistar og bættrar lýðheilsu. Einnig nýtist styrkurinn í innleiðingu á forritinu Avenza sem ætlað er að halda utan um kortlagningu skógræktar með stafrænum hætti og þar með ná betri yfirsýn yfir útbreiðslu nýrra skóga og bindingu þeirra.

Arion banki hefur um árabil styrkt Skógræktarfélag Íslands og á stuðningur bankans sér langa forsögu sem nær allt aftur til þess er bankinn var Búnaðarbanki Íslands. Þess má til gamans geta að Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2021 verður haldinn í fundarsal bankans að Borgartúni 19, en vegna Covid-19 var ekki stætt á því að halda aðalfund með hefðbundnu sniði.

Arion banki hefur sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á að auki í samstarfi við Kolvið varðandi mótvægisaðgerðir. Kolviður gróðursetti um 4.700 tré til að vega upp á móti losun bankans á árinu 2020 vegna reksturs, þ.e. húsnæðis og bíla, en einnig vegna flugferða og leigubílaferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu.


Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, Hlédís Sigurðardóttir, verkefnastjóri samfélagsábyrgðar og Anna Sigríður Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður bankastjóra, við undirritun samningsins.

 

Líf í lundi 2021

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins í kringum Jónsmessuna og er markmið hans að fá fólk til að heimsækja skóga landsins og njóta þess sem þeir hafa upp á að bjóða. Undanfarið ár hefur sannarlega sýnt fram á mikilvægi skóga, en skóglendi hérlendis hafa líklega sjaldan verið notuð jafn mikið til útivistar og heilsubótar og nú.

Í ár var boðið upp á viðburði undir hatti Lífs í lundi í fjórða sinn, en alls voru fjórtán viðburðir í boði, víða um land. Flestir viðburðirnir voru haldnir laugardaginn 26. júní og gerðu veðurguðirnir sitt til að gera daginn ánægjulegan, en einmuna blíða var.

Á Facebook-síðu Líf í lundi má sjá flottar myndir frá hinum ýmsu viðburðum sem haldnir voru (https://www.facebook.com/lifilundi).

Skógarganga 17. júní

Með Fréttir

Skógræktarfélag Reykjavíkur, í samstarfi við Ferðafélag Íslands, stendur nú í sumar fyrir fjórum skógargöngum og fór sú fyrsta fram þann 17. júní í Heiðmörk. Gönguna leiddu Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Í göngunni var meðal annars hugað að varpstæði flórgoða við Elliðavatn, en starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur hafa undanfarin ár dregið greinar og sprek að vatninu, sem flórgoðaparinu fellur vel í geð. Einnig var skoðuð efnisvinnsla félagsins og sagt frá umhirðu skógarins, stígagerð, vatnsvernd og fleiru.

Fylgist með heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur – www.heidmork.is og á Facebook-síðu félagsins – https://www.facebook.com/heidmorkin/ – til að fá upplýsingar um næstu göngur.

Kolviður í samstarf við Lionsklúbb Keflavíkur og Skógræktarfélag Suðurnesja

Með Fréttir

Kolviður hefur undirritað samstarfssamning við Lionsklúbb Keflavíkur og Skógræktarfélag Suðurnesja. Samstarfið lýtur að því að Lionsklúbbur Keflavíkur mun hvetja fyrirtæki og einstaklinga á Suðurnesjum til úrbóta í loftslagsmálum með því að kolefnisbinda hjá Kolviði og mun Lionsklúbburinn fá hlutfall af þeim viðskiptum sem til koma vegna hvatningar þeirra. Mun Lionsklúbburinn svo nýta hluta þeirrar upphæðar sem í þeirra hlut kemur til að styðja Skógræktarfélag Suðurnesja til ræktunar á yndisskógi við Seltjörn.

Boðið verður upp á þann möguleika á heimasíðu Kolviðar að merkja kaup á kolefnisbindingu Lionsklúbbnum og er sá möguleiki í vinnslu.

Frá undirritun samningsins: Rafn Benediktsson (sitjandi t.v.) frá Lionsklúbbi Keflavíkur og Berglind Ásgeirsdóttir (sitjandi t.h.) frá Skógræktarfélagi Suðurnesja setja nöfn sín á samninginn, ásamt Reyni Kristinssyni, formanni Kolviðar (lengst til hægri). Mynd: BJ

Skógræktarfélag Íslands gerir samning við 66°Norður

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands og Sjóklæðagerðin/66°Norður hafa gert með sér samstarfssamning. Samningurinn er til fimm ára og er markmið hans að vinna sameiginlega að ræktun yndisskógar á Úlfljótsvatni, til að efla umhverfisvitund starfsmanna 66°N, binda kolefni og bæta umhverfið.

Samningurinn var undirritaður við hátíðlega athöfn í Úlfljótsvatnskirkju laugardaginn 29. maí. Að undirritun lokinni var haldið til gróðursetningar og fyrstu plönturnar settar niður, í blíðskaparveðri, þrátt fyrir að veður væri almennt frekar rysjótt þennan dag og virðast veðurguðirnir því hafa verið þessu verkefni velviljaðir! Dagskrá dagsins lauk svo með grilli í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.

F.v. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°N, takast í hendur að lokinni undirritun samningsins. Mynd: BJ

Það var vasklegur hópur sem nýtti góða veðrið til gróðursetningar. Mynd: BJ

Meistaravörn í skógfræði 2. júní

Með Fréttir

Þórhildur Ísberg ver meistararitgerð sína í skógfræði er nefnist „The pathogenicity of the blue stain fungus Ophiostoma clavatum in Scots pine seedlings” á ensku, en á íslensku útleggst titillinn „Sýkingarmætti grágeitarsveppsins Ophiostoma clavatum í fræplöntum skógarfuru”.

Leiðbeinendur eru dr. Riikka Linnakoski við Náttúruauðlindastofnun Finnlands (LUKE), próf. Bjarni Diðrik Sigurðsson við Landbúnaðarháskóla Íslands og dr. Risto Kasanen við Helsinkiháskóla.

Vörnin fer fram miðvikudaginn 2. júní 2021 kl. 13:00 og verður streymt í gegnum Zoom fjarfundabúnað. Nánari upplýsingar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands – lbhi.is