Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla – og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2012

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2012 er komið út. Kortið prýðir vatnslitamynd eftir Sigurþór Jakobsson og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2012.

Sérstök hvatning er á kortinu, þar sem kemur fram að fyrir hvert selt kort gróðursetur félagið eitt tré. Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í búnti með umslagi, á kr. 1.000. Ef pöntuð eru 50 kort eða fleiri er veittur 25 % afsláttur.

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Skúlatúni 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér).

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við 250 kr. afgreiðslugjald.

 

kort2012 web

Sjálfboðaliðadagur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 29. september verður hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gróðursett verður í Vatnshlíðina við Hvaleyrarvatn í minningarlund um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson og verður hafist handa kl. 10.00. Plöntur og verkfæri verða á staðnum.

Best er að komast að svæðinu með því að beygja til hægri fljótlega eftir að komið er inn á Hvaleyrarvatnsveg og aka vegstubbinn vestur með hlíðinni á enda.

Allir sjálfboðaliðar velkomnir. Margar hendur vinna létt verk.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma félagsins: 555-6455.

Opinn skógur að Laugalandi á Þelamörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði Laugalandsskóg á Þelamörk formlega sem Opinn skóg sunnudaginn 26. ágúst. Af því tilefni var efnt til hátíðar- og skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna í skóginum.

Hófst dagskráin með ávarpi Sigrúnar Stefánsdóttur, formanns Skógræktarfélags Eyfirðinga, en því næst opnaði Vigdís Finnbogadóttir skóginn formlega með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn. Var því næst gengið að lundi í skóginum, en þar fluttu ávörp, auk Vigdísar, þau Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bjarni Guðleifsson, fulltrúi Hörgárbyggðar, Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra og Margrét Sveinsdóttir, fulltrúi Arion-banka, en bankinn er megin styrktaraðili Opinna skóga, ásamt Skeljungi. Einnig flutti Jóhanna Oddsdóttir frumsamið ljóð um skóginn og Helgi og hljóðfæraleikararnir tóku lagið á milli atriða. Lauk samkomunni svo með hressingu í boði Skógræktarfélags Eyfirðinga – dýrindis bakkelsi og ketilkaffi að hætti skógarmanna. Lögðu um hundrað manns leið sína í skóginn af þessu tilefni og áttu ánægjulega stund í blíðskaparveðri.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

Myndir frá opnun má skoða á Facebook-síðu Skógræktarfélagsins (hér).

Vigdís Finnbogadóttir opnar Laugalandsskóg

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni af vígslu Laugalandsskógar sem ,,Opins skógar“ verður efnt til hátíðar- og skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna sunnudaginn 26. ágúst kl. 16. Laugalandsskógur er í Hörgárdal, í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá Akureyri. Þar er búið að leggja stíga og setja upp skilti og öll aðstaða til útivistar og náttúruskoðunar er til fyrirmyndar. Við bjóðum öllum að koma og eiga saman góða stund í skóginum.

Dagskrá:

– Ávörp flytja Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri Hörgárbyggðar og Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra.

– Helgi og Hljóðfæraleikararnir leika í skóginum

– Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, opnar skóginn formlega.

– Fulltrúar styrktaraðila Opins skógar, Arion-banka og Skeljungs, flytja ávörp.

– Boðið verður upp ketilkaffi að hætti skógarmanna og meðlæti.

Nánar má lesa um Laugalandsskóg á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga (hér).

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Hafnarfirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 18. ágúst verður hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur í Höfðaskógi.

Hjálmarslundur í Vatnshlíð (í hlíðinni norður af Hvaleyrarvatni) – kl. 14.00
1. Ávarp: Jónatan Garðarsson formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
2. Ávarp: Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar
3. Helgistund í umsjón séra Gunnþórs Ingasonar.
4. Ávarp: Guðbrandur Brynjúlfsson formaður Landgræðslusjóðs.
5. Afhjúpun minnisvarða um Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson.
6. Ganga með Jónatan Garðarssyni um Höfðaskóg að bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar.

Bækistöðvar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar við Kaldárselsveg – kl. 15.00
1. Veitingar að göngu lokinni.
2. Þórður Marteinsson leikur ljúf lög á harmonikku.
3. Skógargetraun fyrir yngstu kynslóðina. Dregið úr réttum svörum og verðlaun  veitt kl. 16.30.
4. Heitt í kolunum á hlaðinu. Komið með á grillið.
5. Gömlu góðu leikirnir fyrir krakka á öllum aldri í boði ÍTH.

Hestamiðstöð Íshesta – kl. 15.00
1. Börnin fá að fara á hestbak í gerðinu við Hestamiðstöð Íshesta milli kl. 15.00 – 16.00.

Fylgist með á heimasíðu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar (hér).

Sumarferð Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar fer í sína árlegu sumarferð laugardaginn 18. ágúst. Farið verður að Úlfljótsvatni, skoðaður Ungmennafélagsreiturinn við Þrastarskóg, komið við í gróðrarstöð og skógurinn undir Hamrinum í Hveragerði skoðaður.

Lagt er af stað frá KFC í Mosfellsbæ kl. 10:00. Gert er ráð fyrir að koma til baka á milli fimm og sex.

Skógarstígur opnaður á Kántrýdögum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Dagana 17.-19. ágúst verða haldnir Kántrýdagar á Skagaströnd. Meðal fjölmargra viðburða á dagskrá er formleg opnun nýs skógarstíg hjá Skógræktarfélagi Skagastrandar. Er gönguleiðin um Hólaberg, skógarreit ofan við tjaldstæði á Hólatúni.

Fyrir þá sem vilja smella sér í gönguferð þá er formleg opnun föstudaginn 17. ágúst kl. 17:30.

Nánari upplýsingar um Kántrýdaga má sjá á heimasíðu Skagastrandar (hér).

Vinnukvöld á Gunnfríðarstöðum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Undirbúningur er á fullu fyrir aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn verður á Blönduósi 24. – 26. ágúst næstkomandi.

Á Gunnfríðarstöðum er unnið á fullu við grisjun skógarins. Viðurinn verður notaður í bekki og sem kurl í stíga. Einnig er stíga- og brúargerð í gangi auk margra annara verkefna. Á þessu ári eru liðin 50 ár frá fyrstu gróðursetningu og verður þeirra tímamóta minnst á aðalfundinum.

Félagið hefur ákveðið að hafa vinnukvöld miðvikudaginn 15. ágúst kl 17:30. Tilvalið að fara fjölskylduferð og grilla kvöldverðinn á steingrilli félagsins.

Stjórn Skógræktarfélags A-Húnvetninga

sk ahun-undirbun

Hundrað manns í skógræktarátaki í Garðabæ

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Um hundrað ungmenni fengu vinnu í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar í júní og júlí. Þetta er fjórða sumarið í röð sem þessir aðilar standa að slíku atvinnuátaki og hefur umfang þess verið svipað öll árin. Ungmennin fengust við margvísleg störf á skógræktarsvæðum í upplandi bæjarins, aðallega í Smalaholti og í Sandahlíð. Nýir stígar voru lagðir í Smalaholti og tenging gerð við skógræktarsvæðið í Sandahlíð. Þá var útbúinn nýr og glæsilegur áningarstaður í Smalaholti þar sem er gott útsýni yfir Vífilsstaðavatn og nágrenni.

Af öðrum verkefnum sumarsins má nefna uppgræðslu, ruslatínslu, grisjun, gróðursetningu, áburðargjöf og heftingu lúpínu. Almenn ánægja hefur verið með átakið í Garðabæ enda hefur það skilað góðum árangri og stuðlað að því að bæta og fegra skógræktarsvæði bæjarbúa. Matthías Ólafsson yfirflokkstjóri og Erla Bil Bjarnardóttir, umhverfisstjóri Garðabæjar, tóku saman skýrslu um átakið í ár sem hægt er að skoða hér (pdf).