Skip to main content
All Posts By

a8

Opinn skógur að Laugalandi á Þelamörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði Laugalandsskóg á Þelamörk formlega sem Opinn skóg sunnudaginn 26. ágúst. Af því tilefni var efnt til hátíðar- og skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna í skóginum.

Hófst dagskráin með ávarpi Sigrúnar Stefánsdóttur, formanns Skógræktarfélags Eyfirðinga, en því næst opnaði Vigdís Finnbogadóttir skóginn formlega með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn. Var því næst gengið að lundi í skóginum, en þar fluttu ávörp, auk Vigdísar, þau Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bjarni Guðleifsson, fulltrúi Hörgárbyggðar, Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra og Margrét Sveinsdóttir, fulltrúi Arion-banka, en bankinn er megin styrktaraðili Opinna skóga, ásamt Skeljungi. Einnig flutti Jóhanna Oddsdóttir frumsamið ljóð um skóginn og Helgi og hljóðfæraleikararnir tóku lagið á milli atriða. Lauk samkomunni svo með hressingu í boði Skógræktarfélags Eyfirðinga – dýrindis bakkelsi og ketilkaffi að hætti skógarmanna. Lögðu um hundrað manns leið sína í skóginn af þessu tilefni og áttu ánægjulega stund í blíðskaparveðri.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

Myndir frá opnun má skoða á Facebook-síðu Skógræktarfélagsins (hér).

Vigdís Finnbogadóttir opnar Laugalandsskóg

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni af vígslu Laugalandsskógar sem ,,Opins skógar“ verður efnt til hátíðar- og skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna sunnudaginn 26. ágúst kl. 16. Laugalandsskógur er í Hörgárdal, í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá Akureyri. Þar er búið að leggja stíga og setja upp skilti og öll aðstaða til útivistar og náttúruskoðunar er til fyrirmyndar. Við bjóðum öllum að koma og eiga saman góða stund í skóginum.

Dagskrá:

– Ávörp flytja Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri Hörgárbyggðar og Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra.

– Helgi og Hljóðfæraleikararnir leika í skóginum

– Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, opnar skóginn formlega.

– Fulltrúar styrktaraðila Opins skógar, Arion-banka og Skeljungs, flytja ávörp.

– Boðið verður upp ketilkaffi að hætti skógarmanna og meðlæti.

Nánar má lesa um Laugalandsskóg á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga (hér).

Námskeið hjá Endurmenntun LbhÍ

Með Fræðsla

Ýmisleg áhugaverð námskeið eru í boði nú á næstunni hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands.  Má þar meðal annars nefna námskeið um Sveppi og sveppatínslu, en nú er einmitt rétti tíminn til að halda út í skóg og tína sveppi. Haldin verða tvö námskeið – annað í Borgarnesi þann 26. ágúst og hitt í Reykjavík 1. september.

Nánari upplýsingar um námskeiðin, og önnur sem í boði eru, má finna á heimasíðu Landbúnaðarháskólans (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2012 settur

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2012 var settur í gær, föstudaginn 24. ágúst, en að þessu sinni er hann haldinn á Blönduósi, í boði Skógræktarfélags A-Húnvetninga.

Hófst fundurinn með ávörpum, skýrslu stjórnar og kynningu reikninga Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs. Eftir hádegismat var unnið að tillögum að ályktunum í nefndum en að því loknu var haldið í kynnisferð á vegum Skógræktarfélags A-Húnvetninga um skógarreiti í nágrenninu.

Fundur hélt svo áfram í dag, en fyrir hádegi eru margvísleg áhugaverð fræðsluerindi. Eftir hádegið er svo komið að annari kynnisferð. Fundi lýkur svo um hádegi á morgun.

Fylgjast má með fundinum á Facebook-síðu Skógræktarfélags Íslands (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2012

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands verður haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi helgina 24.-26. ágúst. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir um Blönduósbæ og nærsveitir þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast því sem Austur-Húnvetningar eru að gera á sviði trjá- og skógræktar. Hápunktur fundarins er hátíðarkvöldverður í Félagsheimilinu á laugardagskvöld þar sem valinkunnir menn verða heiðraðir fyrir framlag sitt til skógræktar og dans stiginn fram á nótt.

Mikill sóknarhugur og bjartsýni einkennir starf Skógræktarfélags Íslands um þessar mundir enda hefur margt gerst á því ári sem liðið er frá síðasta aðalfundi. Meðal annars festi félagið kaup á jörðinni Úlfljótsvatni í samstarfi við skátahreyfinguna og stóð fyrir vel heppnuðum Jólatrjáamarkaði við Umferðarmiðstöðina. Að auki sinnti félagið hefðbundnum verkefnum svo sem Landgræðsluskógum, Yrkjugróðursetningum grunnskólabarna og atvinnuátaki í samstarfi við skógræktarfélög og sveitarfélög um land allt.

Dagskrá aðalfundar, starfsskýrslur Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs og aðrar gagnlegar upplýsingar má nálgast á vefsvæði Skógræktarfélags Íslands (hér).

 

Hægt verður að fylgjast með gangi fundarins á Facebook-síðu Skógræktarfélagsins (hér).

Sumarferð Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar fer í sína árlegu sumarferð laugardaginn 18. ágúst. Farið verður að Úlfljótsvatni, skoðaður Ungmennafélagsreiturinn við Þrastarskóg, komið við í gróðrarstöð og skógurinn undir Hamrinum í Hveragerði skoðaður.

Lagt er af stað frá KFC í Mosfellsbæ kl. 10:00. Gert er ráð fyrir að koma til baka á milli fimm og sex.

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar í Hafnarfirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 18. ágúst verður hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur í Höfðaskógi.

Hjálmarslundur í Vatnshlíð (í hlíðinni norður af Hvaleyrarvatni) – kl. 14.00
1. Ávarp: Jónatan Garðarsson formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
2. Ávarp: Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar
3. Helgistund í umsjón séra Gunnþórs Ingasonar.
4. Ávarp: Guðbrandur Brynjúlfsson formaður Landgræðslusjóðs.
5. Afhjúpun minnisvarða um Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson.
6. Ganga með Jónatan Garðarssyni um Höfðaskóg að bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar.

Bækistöðvar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar við Kaldárselsveg – kl. 15.00
1. Veitingar að göngu lokinni.
2. Þórður Marteinsson leikur ljúf lög á harmonikku.
3. Skógargetraun fyrir yngstu kynslóðina. Dregið úr réttum svörum og verðlaun  veitt kl. 16.30.
4. Heitt í kolunum á hlaðinu. Komið með á grillið.
5. Gömlu góðu leikirnir fyrir krakka á öllum aldri í boði ÍTH.

Hestamiðstöð Íshesta – kl. 15.00
1. Börnin fá að fara á hestbak í gerðinu við Hestamiðstöð Íshesta milli kl. 15.00 – 16.00.

Fylgist með á heimasíðu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar (hér).

Skógardagur hjá Skógræktarfélaginu Mörk

Með Skógargöngur

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn á Teygingalæk á Brunasandi laugardaginn 18. ágúst kl. 13:30.

Við skoðum ræktun skógarbændanna Sveinbjargar og Ólafs, grillum og eigum góða stund saman.

Takið daginn frá – allir áhugasamir velkomnir.

Skógræktarfélagið Mörk,
Kirkjubæjarklaustri.

Skógarstígur opnaður á Kántrýdögum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Dagana 17.-19. ágúst verða haldnir Kántrýdagar á Skagaströnd. Meðal fjölmargra viðburða á dagskrá er formleg opnun nýs skógarstíg hjá Skógræktarfélagi Skagastrandar. Er gönguleiðin um Hólaberg, skógarreit ofan við tjaldstæði á Hólatúni.

Fyrir þá sem vilja smella sér í gönguferð þá er formleg opnun föstudaginn 17. ágúst kl. 17:30.

Nánari upplýsingar um Kántrýdaga má sjá á heimasíðu Skagastrandar (hér).

Vinnukvöld á Gunnfríðarstöðum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Undirbúningur er á fullu fyrir aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn verður á Blönduósi 24. – 26. ágúst næstkomandi.

Á Gunnfríðarstöðum er unnið á fullu við grisjun skógarins. Viðurinn verður notaður í bekki og sem kurl í stíga. Einnig er stíga- og brúargerð í gangi auk margra annara verkefna. Á þessu ári eru liðin 50 ár frá fyrstu gróðursetningu og verður þeirra tímamóta minnst á aðalfundinum.

Félagið hefur ákveðið að hafa vinnukvöld miðvikudaginn 15. ágúst kl 17:30. Tilvalið að fara fjölskylduferð og grilla kvöldverðinn á steingrilli félagsins.

Stjórn Skógræktarfélags A-Húnvetninga

sk ahun-undirbun