Skip to main content
All Posts By

a8

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Fuglaskoðun

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hin árlega fuglaskoðunarferð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður laugardaginn kemur 1. júní í tengslum við bæjarhátíðina„Bjarta daga“. Lagt verður af stað frá bækistöðvum félagsins og Þallar kl. 10:00. Gangan tekur um tvær klukkustundir. Leiðsögumenn verða vanir fuglaskoðarar. Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455.

sk hafn fuglaskodun

Þúfutittlingur (Mynd: Björgvin Sigurbergsson).


Fuglavernd: Fuglaskoðun í Vatnsmýri og Friðlandinu í Flóa

Með Ýmislegt

Laugardaginn 1. júní nk. býður Fuglavernd áhugasömum upp á tvær fuglaskoðanir, annars vegar í Vatnsmýrinni og í kringum Tjörnina og hins vegar í Friðlandinu í Flóa. Ókeypis er í báðar fuglaskoðanirnar og allir velkomnir. Mikilvægt er að vera vel skóaður, muna eftir sjónauka og jafnvel handbók um fugla.

Fuglaskoðunin í Vatnsmýrinni og í kringum Tjörnina er leidd af Aron Leví og hefst kl. 16:00 frá anddyri Norræna hússins. Hún stendur yfir í u.þ.b. 1 klst. og skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn, Þorfinnstjörn, Suðurtjörn og Norðurtjörn. Fuglaskoðunin er haldin í samvinnu við Norræna húsið og er á vegum nýstofnaðs félagsskapar sem kallar sig Hollvini Tjarnarinnar. Markmið þeirra er að hlúa að lífríki Tjarnarinnar, m.a. með hreinsun og hreiðurgerð. Félagsskapurinn er opinn öllum og hægt er að skrá sig á fuglavernd@fuglavernd.is.

Friðlandið í Flóa er ein af skrautfjöðrum Fuglaverndar og þar mun Hjálmar A. Jónsson leiða skoðunina á laugardaginn. Mæting er við fuglaskoðunarskýlið við bílastæðið í Friðlandinu og hefst hún kl. 16:30. Nú á varptíma er tilvalinn tími til að skoða hina fjölbreyttu fánu votlendisfugla, en nærri 25 tegundir verpa að staðaldri í Friðlandinu. Einnig er áhugavert að sjá gróðurinn vakna til lífsins eftir vetrardvala.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Fuglaverndar, www.fuglavernd.is.


fuglavernd-fuglaskodun-juni

(Mynd: Helgi Skúlason).

Handverkssýning í Selinu

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Viðarvinir verða með handverkssýningu á tálguðum, renndum og útskornum munum í Selinu, bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar við Kaldárselsveg, laugardaginn 18. maí, kl. 10:00-18:00. Gróðrarstöðin Þöll opnar aftur sama dag.

Allir velkomnir. Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, s. 555-6455.

Minningarlundur um Útey

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Á þjóðhátíðardegi Norðmanna, þann 17. maí næstkomandi, verður minningarathöfn í minningarlundi um fórnarlömbin á Útey og í Osló, en fyrstu trén í lundinn voru sett niður í júní í fyrra.

Lundurinn er staðsettur á jaðri friðaða svæðisins í Vatnsmýrinni. Í lundinum verða átta reynitré, sem tákna Norðurlöndin fimm ásamt sjálfsstjórnarhéruðunum þremur (Færeyjar, Álandseyjar og Grænland) og 77 birkitré – eitt fyrir hvern þann sem missti lífið í árásunum.

Hátíðardagskrá verður í Norræna húsinu fyrir athöfnina í lundinum og verður skrúðganga þaðan að reitnum. Athöfn þar hefst kl. 13:15. Dagskrá hennar er:
– Þorvaldur S. Þorvaldsson segir stuttlega frá tilurð lundarins.
– Kór frá Þrændalögum flytur lagið Til ungdommen, eftir Nordahl Grieg og Otto Mortensen.
– Dagur B. Eggertsson flytur ávarp, fyrir hönd Reykjavíkurborgar.
– Sendiherra Norðmanna, Dag Wernö Holter, flytur lokaorð.
Skrúðgangan heldur svo áfram í messu í Dómkirkjunni.

Minningarlundurinn er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur, Norræna félagsins, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Norræna hússins.

Meistaravörn í skógfræði x 2

Með Ýmislegt

Föstudaginn 17. maí kl. 13.30-15.30 munu þær Else Møller og Lilja Magnúsdóttir verja meistararitgerðir sínar í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Varnirnar verða í Borg í Ársal á Hvanneyri, Else frá 13.30-14.30 og Lilja frá 14.30-15.30. Boðið verður upp á kaffi í lok athafnar.

Ritgerð Else heitir Hraðrækt jólatrjáa á ökrum – Áhrif mismunandi ræktunaraðferða á lifun og vöxt jólatrjáa á fyrstu vaxtarstigum. Aðalleiðbeinandi er Bjarni Diðrik Sigurðsson og meðleiðbeinendur þeir Brynjar Skúlason, Björn B. Jónsson og Claus Jerram Christensen.
Ritgerð Lilju heitir Hagræn áhrif skógræktar – Árangur í atvinnuuppbyggingu á vegum landshlutaverkefna í skógrækt. Leiðbeinendur eru Daði Már Kristófersson og Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Nánar má lesa um varnirnar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 15. maí 2013 kl. 20:30 í Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Dagskrá
1) Venjuleg aðalfundarstörf:
Fundargerð síðasta aðalfundar
Skýrsla formanns
Reikningar. Ákvörðun árgjalds 2013. 
Kosningar
2) Sumarstarfið. Gróðursetning, grisjun, stígagerð o.fl.
3) Lög félagsins. Lögin þarf að endurskoða. Á að skipa laganefnd?
4) Önnur mál.

Allir velkomnir.

Fuglavernd: Alþjóðlegi farfugladagurinn – fuglaskoðun á Álftanesi

Með Ýmislegt

Í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum munu Fuglavernd vera með fuglaskoðun á Álftanesi sunnudaginn 12. maí. Allflestir farfuglarnar eru komnir og búist er við miklu fuglalífi. Ólafur Torfason fuglamerkingarmaður með meiru mun leiða hópinn en lagt verður af stað frá Kasthústjörn klukkan 13:00 stundvíslega.

Ljósmyndin er af margæs en nú er mikið af þeim á Álftanesi og eru þær hér fargestir vor og haust. Margæsin er minnsta gæsin hér á landi, aðeins lítið eitt stærri en stokkönd, með sótsvart höfuð, háls og bringu, grábrúnt bak og vængi. Okkar fargestir eru af undirtegund sem er ljósari á kviðinn og verpa á kanadísku Íshafseyjunum en hafa vetursetu á Írlandi. Aðalfæða þeirra er marhálmur, og draga þær nafn sitt af því, en þær sækja oft í tún á vorin og éta sjávarfitjung og grænþörunga.

Allir eru velkomnir en gaman er að taka sjónaukann með og klæða sig vel.

fuglavernd-fuglaskodun-mai

Mynd: Eyþór Ingi Sigurðsson.

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga 2013

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga verður haldinn í húsnæði félagsins í Kjarnaskógi, laugardaginn 11. maí og hefst hann kl 14:00.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Að fundi loknum verður boðið upp á léttar veitingar og síðan mun Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga flytja erindi um fjölgun trjáa og runna með græðlingum.


Verið hjartanlega velkomin

Skógræktarfélag Eyfirðinga