Á þjóðhátíðardegi Norðmanna, þann 17. maí næstkomandi, verður minningarathöfn í minningarlundi um fórnarlömbin á Útey og í Osló, en fyrstu trén í lundinn voru sett niður í júní í fyrra.
Lundurinn er staðsettur á jaðri friðaða svæðisins í Vatnsmýrinni. Í lundinum verða átta reynitré, sem tákna Norðurlöndin fimm ásamt sjálfsstjórnarhéruðunum þremur (Færeyjar, Álandseyjar og Grænland) og 77 birkitré – eitt fyrir hvern þann sem missti lífið í árásunum.
Hátíðardagskrá verður í Norræna húsinu fyrir athöfnina í lundinum og verður skrúðganga þaðan að reitnum. Athöfn þar hefst kl. 13:15. Dagskrá hennar er:
– Þorvaldur S. Þorvaldsson segir stuttlega frá tilurð lundarins.
– Kór frá Þrændalögum flytur lagið Til ungdommen, eftir Nordahl Grieg og Otto Mortensen.
– Dagur B. Eggertsson flytur ávarp, fyrir hönd Reykjavíkurborgar.
– Sendiherra Norðmanna, Dag Wernö Holter, flytur lokaorð.
Skrúðgangan heldur svo áfram í messu í Dómkirkjunni.
Minningarlundurinn er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur, Norræna félagsins, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Norræna hússins.
Nýlegar athugasemdir