Skip to main content
All Posts By

a8

Ljóðagöngur

Með Skógargöngur

Ljóðaganga verður haldin í trjásafninu á Hallormsstað á fimmtudagskvöld, 16. október kl. 20. Gangan er liður í dagskrá Litlu ljóðahátíðarinnar í Norðausturríki og er haldin í samvinnu við Skógrækt ríkisins.

Gengið verður um trjásafnið með kyndla. Við ljósið frá þeim og yl frá varðeldi og ketilkaffi verður hlýtt á frumort ljóð. Hulda Sigurdís Þráinsdóttir, Sveinn Snorri Sveinsson, Ingunn Snædal og Stefán Bogi Sveinsson lesa úr verkum sínum.

Einnig verður ljóðaganga sunnudaginn 19. október, í samvinnu við Skógræktarfélag Eyfirðinga. Hún verður haldin kl. 14 í Vaðlaskógi gegnt Akureyri. þar koma fram Bjarki Karlsson, Kristín Eiríksdóttir, Kristian Guttesen og fleiri.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Skógræktar ríkisins – www.skogur.is

Ályktun Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga á Vestfjörðum um Teigsskóg

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands telur, ásamt skógræktarfélögum á Vestfjörðum, að ekki sé ástæða til að leggjast gegn vegagerð um Teigsskóg í Þorskafirði. Í umræðu um ráðgerðan veg hefur því m.a. verið haldið fram að nauðsynlegt sé að varðveita Teigsskóg. Telja verður að þetta séu haldlaus rök, notuð sem yfirvarp. Örlítið brot af Teigsskógi og skóglendi að vestanverðu í Þorskafirði fer undir veg samkvæmt nýjustu tillögu Vegagerðarinnar, innan við 1% af heildarflatarmáli skógarins. Skaðinn er því óverulegur. Við fyrirhugaðar framkvæmdir verður jafnmikill birkiskógur ræktaður innan héraðs til mótvægis við skerðingu í Teigsskógi. Birkiskóglendi á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum minnkar því ekki við gerð vegarins.

Á Vestfjörðum er að finna marga fallega birkiskóga. Nýr vegur um Teigsskóg mun greiða almenningi leið að Teigsskógi til að njóta hans og annarra fallegra náttúrufyrirbæra við utanverðan Þorskafjörð. Félögin benda á að engir hafa varðveitt betur sinn upprunalega birkiskóg en Barðstrendingar. Kjarr er mjög víða í sýslunni og nánast ómögulegt að leggja vegi án þess að að fara um kjarrlendi. Undanfarin tvö ár hefur Vegagerðin unnið að löngu tímabærum vegabótum vestar í sýslunni og hefur þurft að ryðja þar alls um 5 hektara birkiskógar. Til samanburðar er talið að varanleg röskun í Teigsskógi og Þorskafirði verði samtals 6,1 ha, verði farin sú veglína sem Vegagerð ríkisins kynnti nýlega.

Samkvæmt gildandi lögum er Vegagerðinni skylt að rækta nýjan birkiskóg á jafnstóru svæði og því sem skert er. Náttúrulegir birkiskógar í héraðinu eru jafnframt í mikilli útbreiðslu og vexti um þessar mundir.

Engin sérstök náttúrufræðileg rök hníga því til þess að fáeinir hektarar af birki í Teigsskógi skuli vera sá farartálmi nauðsynlegum vegabótum sem raun ber vitni. Óhóflegar og illa rökstuddar verndarkröfur mega ekki hindra að lagðir verði nútímalegir vegir um sýsluna. Með því væri að óþörfu gengið gegn búsetugæðum íbúa sem hafa verið í fararbroddi við að rækta og vernda náttúrulegt skóglendi.

Skógræktarfélag Bolungarvíkur
Skógræktarfélag Ísafjarðar
Skógræktarfélag Dýrafjarðar
Skógræktarfélag Bíldudals
Skógræktarfélag Tálknafjarðar
Skógræktarfélag Patreksfjarðar
Skógræktarfélag Strandasýslu
Skógræktarfélag Íslands

Nánari upplýsingar veita Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, s. 665-8910 og Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, s. 820-2113.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Kvöldganga í skógi

Með Skógargöngur

Þriðjudaginn 23. september standa Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar fyrir kvöldgöngu í skógi. Gengið verður frá gróðrarstöðinni Þöll við Kaldárselsveg kl. 19:00 undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar. Á leiðinni mun sr. Jón Helgi Þórarinsson flytja hugvekju og Jóhann Guðni Reynisson flytur frumort ljóð í tilefni þessarar göngu.

Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér viðeigandi ljósfæri (s.s. vasaljós) og að göngu lokinni verður boðið upp á súkkulaði og kleinur í húsakynnum Þallar.

Skógardagur – Skógræktarfélagið Mörk 70 ára

Með Skógargöngur

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn laugardaginn 20. september kl. 13:30.

Að þessu sinni skoðum við Landgræðsluskóginn á Stjórnarsandi. Mæting er við hliðið á Landgræðslugirðingunni að vestanverðu og síðan er fyrirhugað að ganga austur að Langabakka (um 30 mín.). Fyrir þá sem ekki treysta sér að ganga er boðið upp á akstur.

Í tilefni af 70 ára afmæli félagsins á árinu verður farið í stuttu máli yfir sögu félagsins. Við munum skoða skógræktina, grilla og hafa gaman saman.

Allir þeir sem tóku þátt í gróðursetningu á árum áður eru sérstaklega boðnir velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélagsins Merkur.

Aðalfundur Skógræktarfélags V-Húnvetninga 2014

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags V-Húnvetninga verður haldinn í Hlöðunni, veitingahúsi á Hvammstanga miðvikudaginn 17. september n.k.  kl 20:30. 

Auk venjulegra aðalfundarstarfa mun Bergsveinn Þórsson, svæðisstjóri Norðurlandsskóga í Húnavatnssýslum og Skagafirði, mæta og ræða um skógrækt og trjátegundir og sýna myndir frá starfseminni á liðnum árum.

Nýir félagar velkomnir í félagið og til fundarins.

Stjórn Skogræktarfélags V-Húnvetninga

Fuglavernd: Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru

Með Skógargöngur

Þriðjudaginn 16. september verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi  í tilefni Dags íslenskrar náttúru. Skoðaðir verða glókollar og jafnvel barrfinkur og krossnefir. Þó þetta séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  

Mæting kl. 17:30 á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna. 

fuglavernd-glokollar

(Mynd: Eyþór Ingi Jónsson)


Skógarganga og grill

Með Skógargöngur

Mosfellsbær, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosverjar bjóða til skógargöngu og grillveislu við Hafravatn fyrir alla fjölskylduna í tilefni af Degi íslenskrar náttúru þann 16. september 2014.

Hjólað verður frá miðbæjartorgi Mosfellsbæjar kl. 17.00 að Hafravatni eftir malarvegi. 

Skógarganga frá Hafravatnsrétt við Hafravatn kl. 18.00 um skógarsvæðið í Þormóðsdal.

Grillveisla að lokinni göngunni við Sumargerði, hús Skógræktarfélags Mosfellsbæjar við Hafravatn.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar: skogmos.net

Tré ársins 2014

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Arion banka, útnefnir evrópulerki (Larix decidua) við Arnarholt í Stafholtstungum Tré ársins 2014, við hátíðlega athöfn sunnudaginn 14. september kl. 14.

Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Allir velkomnir.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.


trearsins

(Mynd: Laufey B. Hannesdóttir)