fyrir að rótarhálsfúa verður vart um það leyti sem plantan
varpar af sér fræskurninu. Sótthreinsun jarðvegs og
hreinlæti getur að mestu eða öllu komið í veg fyrir
rótarhálsfúa.
Við dreifsetningu verður að setja sitkagreni með
snöggt um meira bili á milli plantna en rauðgreni, varla
undir 8 cm bili í röðinni. Sitkagrenið þarf að hafa
nægilegt vaxtarrými fyrir neðstu greinakransana. Fari
svo að þeir skemmist eða nái ekki nægum þroska, getur
það valdið nokkurra ára vaxtartregðu eftir að plantan
hefur verið gróðursett.
KVÆMI OG RÆKTUN
Eins og að framan getur hefur sitkagrenifræ verið sótt
til fjölda staða í Alaska allt frá 1940. Vitaskuld hefur
uppruni fræs eða kvæmi tegundarinnar, eins og það nú
nefnist, hvað mesta þýðingu, þegar tré eru flutt í nýtt
umhverfi. Þótt sitkagreni hafi verið ræktað í öðrum
löndum um meir en aldar skeið hafa engar viðhlítandi
kvæmisrannsóknir verið gerðar, sem við Íslendingar
getum haft not af. Hér hafa verið gróðursettir nokkrir
tilraunareitir með ýmsum kvæmum, en trén í þeim eru
enn of ung til að nokkuð verði af þeim ráðið. Sennilega
þarf enn að líða áratugur áður en mæla megi mun á vexti
og þroska kvæmanna svo að örugg niðurstaða fáist.
Reynsla okkar af ræktun sitkagrenis tekur nú yfir
röska tvo tugi ára, eins og áður segir, og má margt af
henni læra. Einkum kom það glöggt í ljós við skaða þá,
sem urðu á sitkagreni í apríl 1963, að mikill munur var á
þoli ýmissa kvæma.
Aðdragandinn að sköðunum var sá, að eftir óvenju
hlýjan sex vikna kafla frá febrúarlokum og fram í apríl
kom hörkufrost á örskömmum tíma. Mörg kvæmanna
höfðu lifnað svo við hlýindin, að þau voru að byrja
vöxtinn þegar frostið kom, og þeim var auðvitað voðinn
vís. Ýmsir munu ef til vill halda að slíkir skaðar og þeir,
sem hér urðu, séu einsdæmi. En svipað og þetta kom fyrir
í Danmörku árið 1938, þegar urmull erlendra trjátegunda
stórskemmdist af nákvæmlega sömu orsökum og hér. Og
þetta kom einnig fyrir þar og í Norður-Þýskalandi vorið
1962.
Þegar hretið skall á hér á Suðurlandi hinn 9. apríl
stóðu 4 kvæmi sitkagrenis hlið við hlið í einum reitanna í
gróðrarstöðinni á Tumastöðum. Voru plönturnar
jafngamlar og bjuggu allar
18
við sömu skilyrði. Eitt kvæmið var vaxið upp af fræi,
sem safnað hafði verið í Hveragerði haustið 1957. Það
var af trjám á lóð Magnúsar Ágústssonar, héraðslæknis,
sem var plantað af börnum Sigurðar Sigurðssonar
búnaðarmálastjóra, en ekki er kunnugt um uppruna
þeirra. Að líkindum eru þau upp vaxin af fræi, sem kom
frá suðausturhluta Alaska 1931 eða 1932. Á þessum
plöntum sá ekki neinar skemmdir. Næst var kvæmi
vaxið upp af fræi, sem safnað hafði verið á Tumastöðum.
og er uppruni foreldranna ókunnur, en þau munu hafa
komið frá Noregi árið fyrir styrjöldina sem smáplöntur.
Af þessum plöntum lifðu 3/5 eða 60%. Þriðja kvæmið
átti ætt sína að rekja til nágrennis Homers í Alaska, og af
því lifði röskur þriðjungur eða 36%. Fjórða kvæmið var
frá Lawing við Kenaivatn í Alaska og af því lifði röskur
fimmti hluti eða 23%. Samtímis fékkst reynsla fyrir því,
að sitkagreni frá Cordova lifði hretið betur af en önnur
kvæmi á Tumastöðum, að Hveragerðistrjánum
undanskildum.
Af þessu má ráða, að sitkagreni frá stöðum, sem liggja
fyrir opnu hafi, reyndust betur en þau, sem ættuð voru
innar af landi, þar sem vetrarríki er meira. Ennfremur
slapp suðrænasta kvæmið við áföll. En þar sem uppruni
þess er ókunnur vitum við ekki hvar samskonar trjáa er
að leita, og við vitum ekki nema að kvæmið kunni að
vera of suðrænt, svo að það geti orðið fyrir öðrum og
annarskonar áföllum, er tímar líða.
KVILLAR OG SJÚKDÓMAR
Sitkagrenið hefur ekki reynst kvillasamt, svo að
tilfinnanlegt mein hafi orðið að. Því fylgja þó að minnsta
kosti tvær tegundir lúsa. Önnur þeirra er örsmá og dökk
og nefnist
Neomyzaphis abietina.
Hún kemur einkum
fram eftir milda vetur og veldur stundum miklu barrfalli.
Töluverð brögð urðu að ásókn hennar eftir skaðana
1963, en síðan hefur hennar lítið orðið vart. Hin lúsin er
miklu stærri og nefnist
Cinaropsis pilicornis.
Er hún allt
að 2-3 mm á lengd og sýgur safann úr yngstu
ársprotunum. Vætlar þá oft mikill harpix úr greinunum
og stirnir á dropana í sólskini. Lúsin er afar viðkvæm og
situr mjög laust, þannig að mikið af henni fellur til
jarðar, þegar greinarnar eru hristar. Er auðvelt að vinna
bug á þessari lús með vægu eitri og meira að segja
hverfur mikið
ÁRSRIT SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 1970
1...,10,11,12,13,14,15,16,17,18,19 21,22,23,24,25,26,27,28,29,30,...83