Fréttir
Ný stórviðarsög í Kjarna

077A9780 1024x683

2. mars 2018

Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk nú í vikunni afhenta nýja stórviðarsög sem á eftir að gjörbreyta aðstöðu félagsins til viðarvinnslu í Kjarnaskógi. Sögin er af gerðinni Woodmizer og er mun öflugri og afkastameiri en sögin sem félagið hefur notað fram að þessu.

Viðarvinnsla hefur verið vaxandi þáttur í starfsemi Skógræktarfélags Eyfirðinga undanfarin ár. Nú er svo komið að sögin sem félagið hefur notað um árabil ræður vart við verkefnið lengur. Þörf er á hraðvirkari og öflugri sög, meðal annars til þess að hægt sé að fletta meira timbri á hverri vinnustund enda verður efnið því dýrara sem lengur tekur að vinna það.

Eftir því sem trén í skógum Skógræktarfélags Eyfirðinga stækka gefast meiri tækifæri til flettingar á íslenskum viði í borð og planka. Félagið sagar þó ekki einungis timbur úr Kjarnaskógi og öðrum reitum sem félagið hefur umsjón með heldur er timbur farið að berast úr öðrum skógum í nágrenninu og sömuleiðis úr bæjarlandi Akureyrarbæjar. Viðurinn fellur að mestu til við grisjun skóganna en einnig þegar tré eru felld í görðum. Til dæmis berast félaginu æ stærri og sverari asparbolir og til sögunar á slíkum trjám duga engin tómstundaverkfæri.

Í undirbúningi er að reisa skýli yfir sögina nýju á athafnasvæði Skógræktarfélagsins í Kjarna. Sléttaður hefur verið völlur undir skýlið spölkorn sunnan við húsnæði félagsins og þar ætti sögin að komast undir þak á næstu mánuðum. Skýlið verður að sjálfsögðu klætt með heimafengnu timbri sem sagað verður með nýju söginni. Því má segja að sögin eigi eftir að vinna sjálf fyrir eigin húsaskjóli.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar sögin nýja var flutt í Kjarnaskóg. Um verkið sáu umboðsmenn Woodmizer á Íslandi, Einar Guðmundsson og Gunnar Guðmundarson hjá Búvís. Einar og Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, handsöluðu kaupin formlega standandi uppi á vörubílspalli við sögina með trén í elsta hluta Kjarnaskógar í baksýn.

 077A9713 1024x683

077A9736 1024x683

077A9743 1024x683

077A9768 1024x683

 
Kynbótastarf er ekki síður mikilvægt í skógrækt en öðrum búgreinum

Kynbótastarf er ekki síður mikilvægt

„Það er mikill annatími framundan hjá okkur og jólatrjásala til heimila í fullum gangi,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, í samtali við Bændablaðið. Myndarleg umfjöllun er í nýútkomnu tölublaði um jólatrjáasölu félagsins og einnig er rætt um kynbótastarf Skógræktarinnar sem miðað er að því að rækta fram fjallaþin sem úrvalsjólatré fyrir íslenskar aðstæður.

Félagið býður fólki að koma í Laugalandsskóg á Þelamörk og höggva sín eigin jólatré tvær helgar í desember og er oft mikill handagangur í öskjunni og stemningin skemmtileg þegar fjölskyldur leita að því tré sem best hentar og njóta um leið útiveru í skóginum.

Stjórnarmenn í félaginu standa vaktina í jólatrjásölunni og bjóða gestum sínum upp á ketilkaffi, kakó og piparkökur auk þess að ræða landsins gagn og nauðsynjar. „Þessi viðburður er okkur mikilvægur til að eiga samskipti við fólkið sem notar skógana okkar sér til yndis og ánægju, en við leggjum mikla áherslu á að bæta aðgengi að þeim og útivistarmöguleika ,“ segir Ingólfur, en nýverið var gert átak í að bæta göngustíga, merkingar og bílastæði í Laugalandsskógi.

Samkeppni við innflutt dönsk
jólatré og plasttré frá Kína

Tekjur af sölu jólatrjáa eru félaginu mikilvægar til að vinna að vexti og viðhaldi skóganna auk þess að bjóða upp á þjónustu í þeim svo sem eins og að troða brautir fyrir göngu- og skíðafólk. „Við eigum í mikilli samkeppni við innflutt jólatré frá Danmörku og plasttré sem gjarnan eru ættuð frá Kína, en ég hef góða tilfinningu fyrir því að ef við leggjum okkur fram um að bjóða góða vöru á sanngjörnu verði gætum við bætt okkar hlut. Að auki bjóðum við okkar viðskiptavinum upp á jákvæða ímynd og upplifun í kaupbæti. Salan hjá okkur hefur hægt en örugglega farið upp á við með hverju árinu og við stefnum að því að halda þeirri þróun, m.a. með aukinni þjónustu við viðskiptavini og bættum gæði trjánna.“

Ingólfur segir að reynt sé að sinna jólaskógum félagsins af kostgæfni, á hverju ári er stafafuru plantað, rauðgreni og fjallaþin. „Mest seljum við af stafafuru, mikið af henni eru sjálfsáin tré þannig að sumir okkar reitir eru sjálfbærir um endurnýjun,“ segir hann. Rauðgreni á sinn trygga kúnnahóp og reynir skógræktarfólk að meðhöndla þau á þann hátt að barrheldni sé tryggð, einkum felst það í að velja þróttleg tré til höggs og höggva þau eins seint og kostur er.

Feta í fótspor norska frændans

„Við hófum að rækta fjallaþin í einhverjum mæli fyrir nokkrum árum og vonumst til að fá hann í sölu á komandi árum, en þar fetum við í fótspor frænda okkar Norðmanna sem náð hafa góðum árangri í ræktun og markaðssetningu hans,“ segir Ingólfur. Tvö kvæmi af fjallaþin hafa einkum verið notuð, „apache“ sem hefur bláleitan blæ og „arapaho“ sem er fagurgrænt. – „Vonandi verður þetta góð viðbót við furuna og rauðgrenið sem við bjóðum nú upp á.“ Dr. Brynjar Skúlason, sem starfar hjá Skógræktinni, hefur safnað saman úrvalstrjám af þessum kvæmum og hefur fræreitur verið settur upp sem vonast er til að gefi úrvalsfræ innan fárra ára.

„Kynbótastarf er ekki síður mikilvægt í skógrækt en í öðrum búgreinum,“ segir Ingólfur.

Virðisaukning á hverju tré

Undanfarnar vikur hefur Skógræktarfélagið einkum sinnt fyrirtækjum sem vilja koma jólabrag á sitt umhverfi, sinnt sölu torgtrjáa sem eru allt að 10 metra há og þá hefur sala á aðventutrjám stóraukist hin síðari ár.

Aðventutrén eru allt að þriggja metra há, sett í kassa sem smíðaðir eru úr eyfirsku lerki og ætlaðir til að standa fyrir utan fyrirtæki og heimili á aðventunni. Trjánum er ekið til viðskiptavina á Eyjafjarðarsvæðinu og þau endurunnin og kassarnir nýttir til annarra verkefna fram að næstu jólum. Trén er hægt að fá með ljósaseríum og segir Ingólfur að heilmikil aukning hafi orðið í umsetningu á þessari vöru, þannig hafi nokkur slík verið send suður yfir heiðar á höfuðborgarsvæðið. „Með þessu erum við að skapa virðisaukningu á hverju tré sem við seljum en við leitum allra leiða til þess. Hjá okkur starfar hagleiksmaður sem gjarnan nýtir neðsta hlutann af trjástofni jólatrjánna, sker út handverk sem endar á jólamarkaði. Fullvinnsla sjávarafurða er hugtak sem við höfum oft heyrt en er okkur kannske síður tamt þegar fjallað þó jafn vel við þar og annars staðar.“

Vefur Bændablaðsins 

 
Seinni helgin í jólatrjáasölunni

 

077A2904 1024x740

Nú er fram undan seinni helgin sem Skógræktarfélag Eyfirðinga býður fólki að koma í Laugalandsskóg á Þelamörk til að velja sér jólatré, njóta útivistar í skóginum og fá hressandi kaffi eða kakó og piparkökur í kaupbæti. Opið verður laugardag og sunnudag, 16. og 17. desember, kl. 11-15. Ekki borgar sig að koma seint því nú er svartasta skammdegið og birtu tekur að bregða um þrjúleytið.

Laugalandsskógur er ofan við Þelamerkurskóla en ekið er að skóginum nokkru norðar. Beygt er við afleggjarann að bænum Grjótgarði og ekið samsíða þjóðveginum til suðurs að skógarhliðinu.

Í Laugalandsskógi er aðallega að finna stafafuru sem er ilmandi og fallegt jólatré sem heldur barrinu vel og endist öll jólin. Félagsmenn í Skógræktarfélagi Eyfirðiinga fá afslátt og því er um að gera að ganga í félagið og styrkja þannig áframhaldandi gott starf félagsins við uppbyggingu og viðhald í Kjarnaskógi, Laugalandsskógi, Hánefsstaðareit í Svarfaðardal, Leyningshólum, Vaðlareit og fleiri skógum sem félagið sér um. Nýir félagar geta sent skeyti á Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpósts þjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. og óskað eftir skráningu í félagið. Velkomin í skóginn!

 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

JPAGE_CURRENT_OF_TOTAL
Skógræktarfélag Eyfirðinga| Heimili: Kjarni, Kjarnaskógi| Póstfang: 600 Akureyri | Sími: 462 4047 | Netfang: ingi (hjá) kjarnaskogur.is