Kynbótastarf er ekki síður mikilvægt í skógrækt en öðrum búgreinum

Kynbótastarf er ekki síður mikilvægt

„Það er mikill annatími framundan hjá okkur og jólatrjásala til heimila í fullum gangi,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, í samtali við Bændablaðið. Myndarleg umfjöllun er í nýútkomnu tölublaði um jólatrjáasölu félagsins og einnig er rætt um kynbótastarf Skógræktarinnar sem miðað er að því að rækta fram fjallaþin sem úrvalsjólatré fyrir íslenskar aðstæður.

Félagið býður fólki að koma í Laugalandsskóg á Þelamörk og höggva sín eigin jólatré tvær helgar í desember og er oft mikill handagangur í öskjunni og stemningin skemmtileg þegar fjölskyldur leita að því tré sem best hentar og njóta um leið útiveru í skóginum.

Stjórnarmenn í félaginu standa vaktina í jólatrjásölunni og bjóða gestum sínum upp á ketilkaffi, kakó og piparkökur auk þess að ræða landsins gagn og nauðsynjar. „Þessi viðburður er okkur mikilvægur til að eiga samskipti við fólkið sem notar skógana okkar sér til yndis og ánægju, en við leggjum mikla áherslu á að bæta aðgengi að þeim og útivistarmöguleika ,“ segir Ingólfur, en nýverið var gert átak í að bæta göngustíga, merkingar og bílastæði í Laugalandsskógi.

Samkeppni við innflutt dönsk
jólatré og plasttré frá Kína

Tekjur af sölu jólatrjáa eru félaginu mikilvægar til að vinna að vexti og viðhaldi skóganna auk þess að bjóða upp á þjónustu í þeim svo sem eins og að troða brautir fyrir göngu- og skíðafólk. „Við eigum í mikilli samkeppni við innflutt jólatré frá Danmörku og plasttré sem gjarnan eru ættuð frá Kína, en ég hef góða tilfinningu fyrir því að ef við leggjum okkur fram um að bjóða góða vöru á sanngjörnu verði gætum við bætt okkar hlut. Að auki bjóðum við okkar viðskiptavinum upp á jákvæða ímynd og upplifun í kaupbæti. Salan hjá okkur hefur hægt en örugglega farið upp á við með hverju árinu og við stefnum að því að halda þeirri þróun, m.a. með aukinni þjónustu við viðskiptavini og bættum gæði trjánna.“

Ingólfur segir að reynt sé að sinna jólaskógum félagsins af kostgæfni, á hverju ári er stafafuru plantað, rauðgreni og fjallaþin. „Mest seljum við af stafafuru, mikið af henni eru sjálfsáin tré þannig að sumir okkar reitir eru sjálfbærir um endurnýjun,“ segir hann. Rauðgreni á sinn trygga kúnnahóp og reynir skógræktarfólk að meðhöndla þau á þann hátt að barrheldni sé tryggð, einkum felst það í að velja þróttleg tré til höggs og höggva þau eins seint og kostur er.

Feta í fótspor norska frændans

„Við hófum að rækta fjallaþin í einhverjum mæli fyrir nokkrum árum og vonumst til að fá hann í sölu á komandi árum, en þar fetum við í fótspor frænda okkar Norðmanna sem náð hafa góðum árangri í ræktun og markaðssetningu hans,“ segir Ingólfur. Tvö kvæmi af fjallaþin hafa einkum verið notuð, „apache“ sem hefur bláleitan blæ og „arapaho“ sem er fagurgrænt. – „Vonandi verður þetta góð viðbót við furuna og rauðgrenið sem við bjóðum nú upp á.“ Dr. Brynjar Skúlason, sem starfar hjá Skógræktinni, hefur safnað saman úrvalstrjám af þessum kvæmum og hefur fræreitur verið settur upp sem vonast er til að gefi úrvalsfræ innan fárra ára.

„Kynbótastarf er ekki síður mikilvægt í skógrækt en í öðrum búgreinum,“ segir Ingólfur.

Virðisaukning á hverju tré

Undanfarnar vikur hefur Skógræktarfélagið einkum sinnt fyrirtækjum sem vilja koma jólabrag á sitt umhverfi, sinnt sölu torgtrjáa sem eru allt að 10 metra há og þá hefur sala á aðventutrjám stóraukist hin síðari ár.

Aðventutrén eru allt að þriggja metra há, sett í kassa sem smíðaðir eru úr eyfirsku lerki og ætlaðir til að standa fyrir utan fyrirtæki og heimili á aðventunni. Trjánum er ekið til viðskiptavina á Eyjafjarðarsvæðinu og þau endurunnin og kassarnir nýttir til annarra verkefna fram að næstu jólum. Trén er hægt að fá með ljósaseríum og segir Ingólfur að heilmikil aukning hafi orðið í umsetningu á þessari vöru, þannig hafi nokkur slík verið send suður yfir heiðar á höfuðborgarsvæðið. „Með þessu erum við að skapa virðisaukningu á hverju tré sem við seljum en við leitum allra leiða til þess. Hjá okkur starfar hagleiksmaður sem gjarnan nýtir neðsta hlutann af trjástofni jólatrjánna, sker út handverk sem endar á jólamarkaði. Fullvinnsla sjávarafurða er hugtak sem við höfum oft heyrt en er okkur kannske síður tamt þegar fjallað þó jafn vel við þar og annars staðar.“

Vefur Bændablaðsins 

 
Skógræktarfélag Eyfirðinga| Heimili: Kjarni, Kjarnaskógi| Póstfang: 600 Akureyri | Sími: 462 4047 | Netfang: ingi (hjá) kjarnaskogur.is