Fréttir


Skíðagöngukort af Kjarnaskógi og Naustaborgum

 Skíðabrautir kjarni 2 1024x725Nýtt skíðagöngukort hefur verið útbúið af Kjarnaskógi og Naustaborgum. Á kortinu sjást meginleiðirnar sem að jafnaði eru troðnar í skóginum. Lengd þeirra er samanlagt um tíu kílómetrar.

Rauður litur sýnir þær leiðir sem ávallt eru troðnar þegar nægur snjór er og aðstæður til að troða.

Ljósguli liturinn sýnir leiðir sem aðeins eru troðnar þegar mikill snjór er. Þessar leiðir er líka reynt að troða á stórhátíðum. Með þeim bætast 3,5 kílómetrar við troðnar skíðagöngubrautir í Kjarnaskógi og Naustaborgum.

 
Jólatrjásala í Laugalandsskógi 2017

077A2904 1024x740Næstu tvær helgar, þ.e. 9.-10. og 16.-17. desember standa fullrúar í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga vaktina í Laugalandsskógi á Þelamörk og selja þar jólatré sem fólki býðst að velja og höggva sjálft gegn vægu gjaldi. Jólatrjásalan er mikilvægur liður í að fjármagna starf félagsins og vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að líta til okkar í jólaskóginn á Laugalandi, njóta útiverunnar, finna draumajólatréð og þiggja ketilkaffi, kakó og piparkökur sem stjórnarliðar framreiða af sinni alkunnu alúð.

Verð fyrir tréð er 7000 kr. óháð stærð (6000 kr. fyrir félagsmenn). Enginn posi er á svæðinu svo gott er að hafa með sér reiðufé. Komið er að skóginum rétt norðan Þelamerkurskóla. Beygt er af þjóðveginum við afleggjarann að bænum Grjótgarði en síðan ekinn gamli þjóðvegurinn til suðurs, samsíða þeim nýja, að hliðinu inn í skóginn.

Með bestu kveðju,

Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

 
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Akureyri

Skógræktarfólk í skógargöngu við Sellæk norðan Akrafjalls á aðalfundinum 2014.

Á dagskrá aðalfundar Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn verður á Akureyri 14.-16. júlí, er formleg vígsla skógarreits á Siglufirði undir merkjum Opins skógar. Þá má nefna forvitnileg erindi um skóg sem orkuauðlind, belgjurtir í skógrækt og sveppanytjar. Einnig verður spurt hvort skógrækt og sauðfjárrækt eigi samleið.

Skógræktarfélag Íslands er móðurfélag skógræktarfélaga vítt og breitt um landið og í röðum þeirra eru milli 7 og 8 þúsund félagsmenn. Skógræktarfélag Akraness og Skógræktarfélag Skilmannahrepps voru gestgjafar fundarins á síðasta ári á Akranesi en nú er komið að Skógræktarfélagi Eyfirðinga að taka á móti skógræktarfólki á aðalfundinum 2015 sem fram fer dagana 14.-16. júlí í Menningarhúsinu Hofi.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpar fundarfólk í upphafi aðalfundarins á föstudagsmorgun ásamt bæjarstjóranum á Akureyri, skógræktarstjóra og formönnum Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Eyfirðinga. Því næst verða fluttar skýrslur og skipað í nefndir að venju. Síðdegis er á dagskránni skoðunarferð til Siglufjarðar þar sem reitur Skógræktarfélags Siglufjarðar verður formlega opnaður undir merkjum Opins skógar. Skógræktarfélag Siglufjarðar fagnar 75 ára afmæli á þessu ári og nú hefur aðstaða fyrir gesti skógarins verið bætt til muna, meðal annars með vegabótum og nýju bílastæði. Samkoma verður í Árhvammi þar sem Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra opnar skóginn formlega með því að klippa á borða. Á bakaleiðinni verður komið við í Hánefsstaðareit í Svarfaðardal, útivistarskógi Dalvíkurbyggðar. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er fastagestur á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, og verður með í för að þessu sinni einnig.

Nýja grillhúsið og leiktæki á Birkivelli.

Á laugardagsmorgun eru forvitnileg erindi á dagskrá aðalfundarins, opin öllum sem vilja sjá og heyra. Hrefna Jóhannesdóttir skógfræðingur talar um skóg sem orkuauðlind, málefni sem er ofarlega á baugi um allan heim. Sigurður Arnarson, höfundur Belgjurtabókarinnar, fjallar um belgjurtir í skógrækt og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindi sem hún kallar „Að sjá ekki skóginn fyrir sveppum“. Einnig flytur formaður Landssambands sauðfjárbænda erindi, Þórarinn Ingi Pétursson, og spyr: „Eiga skógrækt og sauðfjárrækt samleið?“ Að erindunum loknum verða fyrirspurnir og umræður.

Síðdegis á laugardag verður aftur haldið í skoðunarferð og fyrst stansað við Gömlu-Gróðrarstöðina við Krókeyri. Þar verða skoðaðir matjurtagarðar Akureyrarbæjar þar sem bæjarbúar fá skika til ræktunar. Gestir verða fræddir um ríflega aldarlanga sögu ræktunar á þessum stað og hið virðulega hús sem Ræktunarfélag Norðurlands reisti á sínum tíma og nú hýsir skrifstofur Norðurlandsskóga og Akureyrarskrifstofu Skógræktar ríkisins. Sýnd verða söguleg skógræktaráhöld, hlustað á fugla og litið á merk tré í skóginum. Því næst liggur leiðin í Kjarnaskóg þar sem farið verður í skógargöngu með ýmsum viðburðum. Gangan endar á svokölluðum Birkivelli þar sem Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur unnið að því undanfarið ásamt Akureyrarbæ að koma upp nýju samkomusvæði með leikvelli, grillskýli og fleiru í fallegri umgjörð fjölbreytilegs trjágróðurs. Um kvöldið verður hátíðardagskrá í Hofi í boði Skógræktarfélags Eyfirðinga þar sem skógræktarfólk verður heiðrað fyrir störf sín að vanda

Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Akureyri lýkur svo á sunnudag með afgreiðslu reikninga og tillagna, almennum umræðum og kosningu stjórnar. Þá verður jafnframt tilkynnt hvar aðalfundurinn verður haldinn að ári

 
Jólatrjásala í Laugalandsskógi

Minnum á jólatrjásöluna í Laugalandsskógi á Þelamörk nú um helgina 20-21 desember.  Þar er fólki boðið að koma og höggva sitt eigið jólatré, þiggja ketilkaffi og kakó þegar draumatréð er fundið og njóta útiveru í aðdraganda jóla.

Tréð kostar kr 7000 óháð stærð og hvetjum við alla til að kíkja við í jólaskóginum okkar

 
Skógardagur Norðurlands á laugardag 5. júlí
alt
 
Líf og fjör verður í Kjarnaskógi á Akureyri laugardaginn 5. júlí þegar þar verður í fyrsta sinn haldinn Skógardagur Norðurlands. Gestir fá að fræðast um skógrækt og skógarnytjar, sjá skógarhöggsmenn að verki og skoða tækjabúnað þeirra en einnig verður í boði leiksýning, ratleikur, skákmót og fleira.
Það eru Félag skógarbænda á Norðurlandi, Norðurlandsskógar,  Skógfræðingafélag Íslands, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Eyfirðinga, og gróðrarstöðin Sólskógar sem taka höndum saman um þennan viðburð. Meiningin með Skógardegi Norðurlands er að vekja athygli á skógum og skógrækt ásamt því fjölbreytta gagni og nytjum sem af skógunum má hafa.
Dagskráin hefst á leiksýningu fyrir alla fjölskylduna. Frumsýnt verður verk sem verið hefur í undirbúningi síðustu vikur í hópi ungmenna í skapandi sumarstörfum á vegum Akureyrarbæjar. Spennandi verður að sjá útkomuna. Sýningin verður í hlýlegum hvammi skammt frá sólúrinu í Kjarnaskógi, þekktu og áberandi kennileiti þar. Dagskráin fer öll fram þar í kring, til dæmis skógarhöggssýning þar sem sýnd verða handtökin við skógarhögg og þær vélar og búnaður sem notaður er við skógarhögg með handverkfærum. Sett verður upp sýning sem kallast „Frá fræi til fullunninnar vöru“ þar sem fólk getur áttað sig á umbreytingunni úr pínulitlu fræi yfir í hráefni eins og trjáboli og planka. Einnig verða til sýnis skógarvélar og annar búnaður.
Meðan skipulögð dagskrá stendur yfir verður hægt að fara í ratleik um Kjarnaskóg og taka þátt í skákmóti og að sjálfsögðu verður logandi eldur og hitað ketilkaffi, steiktar lummur, grillað pinnabrauð og poppað sem er sérlega skemmtilegt að sjá gert yfir eldi úti í skógi.
Allir eru velkomnir á Skógardag Norðurlands við sólúrið í Kjarnaskógi. Gestum er bent á að leggja bílum sínum á aðalbílastæðum við veginn gegnum skóginn og ganga upp eftir ef þess er nokkur kostur.
 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 Næsta > Síðasta >>

JPAGE_CURRENT_OF_TOTAL
Skógræktarfélag Eyfirðinga| Heimili: Kjarni, Kjarnaskógi| Póstfang: 600 Akureyri | Sími: 462 4047 | Netfang: ingi (hjá) kjarnaskogur.is