Jólatrjásala í Laugalandsskógi 2017

077A2904 1024x740Næstu tvær helgar, þ.e. 9.-10. og 16.-17. desember standa fullrúar í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga vaktina í Laugalandsskógi á Þelamörk og selja þar jólatré sem fólki býðst að velja og höggva sjálft gegn vægu gjaldi. Jólatrjásalan er mikilvægur liður í að fjármagna starf félagsins og vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að líta til okkar í jólaskóginn á Laugalandi, njóta útiverunnar, finna draumajólatréð og þiggja ketilkaffi, kakó og piparkökur sem stjórnarliðar framreiða af sinni alkunnu alúð.

Verð fyrir tréð er 7000 kr. óháð stærð (6000 kr. fyrir félagsmenn). Enginn posi er á svæðinu svo gott er að hafa með sér reiðufé. Komið er að skóginum rétt norðan Þelamerkurskóla. Beygt er af þjóðveginum við afleggjarann að bænum Grjótgarði en síðan ekinn gamli þjóðvegurinn til suðurs, samsíða þeim nýja, að hliðinu inn í skóginn.

Með bestu kveðju,

Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

 
Skógræktarfélag Eyfirðinga| Heimili: Kjarni, Kjarnaskógi| Póstfang: 600 Akureyri | Sími: 462 4047 | Netfang: ingi (hjá) kjarnaskogur.is