Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Akureyri

Skógræktarfólk í skógargöngu við Sellæk norðan Akrafjalls á aðalfundinum 2014.

Á dagskrá aðalfundar Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn verður á Akureyri 14.-16. júlí, er formleg vígsla skógarreits á Siglufirði undir merkjum Opins skógar. Þá má nefna forvitnileg erindi um skóg sem orkuauðlind, belgjurtir í skógrækt og sveppanytjar. Einnig verður spurt hvort skógrækt og sauðfjárrækt eigi samleið.

Skógræktarfélag Íslands er móðurfélag skógræktarfélaga vítt og breitt um landið og í röðum þeirra eru milli 7 og 8 þúsund félagsmenn. Skógræktarfélag Akraness og Skógræktarfélag Skilmannahrepps voru gestgjafar fundarins á síðasta ári á Akranesi en nú er komið að Skógræktarfélagi Eyfirðinga að taka á móti skógræktarfólki á aðalfundinum 2015 sem fram fer dagana 14.-16. júlí í Menningarhúsinu Hofi.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpar fundarfólk í upphafi aðalfundarins á föstudagsmorgun ásamt bæjarstjóranum á Akureyri, skógræktarstjóra og formönnum Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Eyfirðinga. Því næst verða fluttar skýrslur og skipað í nefndir að venju. Síðdegis er á dagskránni skoðunarferð til Siglufjarðar þar sem reitur Skógræktarfélags Siglufjarðar verður formlega opnaður undir merkjum Opins skógar. Skógræktarfélag Siglufjarðar fagnar 75 ára afmæli á þessu ári og nú hefur aðstaða fyrir gesti skógarins verið bætt til muna, meðal annars með vegabótum og nýju bílastæði. Samkoma verður í Árhvammi þar sem Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra opnar skóginn formlega með því að klippa á borða. Á bakaleiðinni verður komið við í Hánefsstaðareit í Svarfaðardal, útivistarskógi Dalvíkurbyggðar. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er fastagestur á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, og verður með í för að þessu sinni einnig.

Nýja grillhúsið og leiktæki á Birkivelli.

Á laugardagsmorgun eru forvitnileg erindi á dagskrá aðalfundarins, opin öllum sem vilja sjá og heyra. Hrefna Jóhannesdóttir skógfræðingur talar um skóg sem orkuauðlind, málefni sem er ofarlega á baugi um allan heim. Sigurður Arnarson, höfundur Belgjurtabókarinnar, fjallar um belgjurtir í skógrækt og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindi sem hún kallar „Að sjá ekki skóginn fyrir sveppum“. Einnig flytur formaður Landssambands sauðfjárbænda erindi, Þórarinn Ingi Pétursson, og spyr: „Eiga skógrækt og sauðfjárrækt samleið?“ Að erindunum loknum verða fyrirspurnir og umræður.

Síðdegis á laugardag verður aftur haldið í skoðunarferð og fyrst stansað við Gömlu-Gróðrarstöðina við Krókeyri. Þar verða skoðaðir matjurtagarðar Akureyrarbæjar þar sem bæjarbúar fá skika til ræktunar. Gestir verða fræddir um ríflega aldarlanga sögu ræktunar á þessum stað og hið virðulega hús sem Ræktunarfélag Norðurlands reisti á sínum tíma og nú hýsir skrifstofur Norðurlandsskóga og Akureyrarskrifstofu Skógræktar ríkisins. Sýnd verða söguleg skógræktaráhöld, hlustað á fugla og litið á merk tré í skóginum. Því næst liggur leiðin í Kjarnaskóg þar sem farið verður í skógargöngu með ýmsum viðburðum. Gangan endar á svokölluðum Birkivelli þar sem Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur unnið að því undanfarið ásamt Akureyrarbæ að koma upp nýju samkomusvæði með leikvelli, grillskýli og fleiru í fallegri umgjörð fjölbreytilegs trjágróðurs. Um kvöldið verður hátíðardagskrá í Hofi í boði Skógræktarfélags Eyfirðinga þar sem skógræktarfólk verður heiðrað fyrir störf sín að vanda

Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Akureyri lýkur svo á sunnudag með afgreiðslu reikninga og tillagna, almennum umræðum og kosningu stjórnar. Þá verður jafnframt tilkynnt hvar aðalfundurinn verður haldinn að ári

 
Skógræktarfélag Eyfirðinga| Heimili: Kjarni, Kjarnaskógi| Póstfang: 600 Akureyri | Sími: 462 4047 | Netfang: ingi (hjá) kjarnaskogur.is