Miðhálsstaðir í Öxnadal


Landeigandi: Ríkissjóður
Umsjón: Skógræktarfélag Eyfirðinga
Stærð: 70 ha
Friðað: 1951, stækkað síðar
Hæstu tré 2000: Blágreni og lerki, gróðursett 1960, 7-8 m

Myndir

Saga skógarins á Miðhálsstöðum í Öxnadal er allsérstæð. Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk umráðarétt yfir eyðibýlinu Miðhálsstöðum árið 1942 en var fjárvana og réð ekki við girðingarkostnaðinn. Skógrækt ríkisins var þá fengin til verksins og hafði með Miðhálsstaði að gera til 1950 að gert var samkomulag um að S.E. tæki við landinu að nýju. Svæðið var loks girt á árunum 1950-1951, alls um 50 ha lands. Árið 1972 var girðingin síðan stækkuð og er nú 70 ha.

Frá upphafi var vitað um birkileifar í smáum stíl á Miðhálsstöðum og gerðu menn sér vonir um sjálfgræðslu birkiskógar eftir friðun. Fljótlega kom i ljós að þær vonir rættust ekki, enda landið þurrt og hrjóstrugt að mestu leyti.

Gróðursett var af kappi í landið frá 1952-1965 og voru sjálfboðaliðar atkvæðamiklir þar sem víðar í reitum félagsins.

Eftir stækkun girðingarinnar kom aftur nokkur kippur í gróðursetningar og einnig síðustu árin fyrir aldamótin. Alls hafa verið gróðursett um 340.000 plöntur á Miðhálsstöðum.

Árangur er æði misjafn, t.d. var miklu plantað af rauðgreni sem ekki hefur dafnað vel á svo rýru landi, en lerki, blágreni og stafafura hafa dafnað vel.

Á Miðhálsstöðum er nú fallegur skógur sem fer einkar vel í landinu eins og sést á myndinni hér efst til hægri.

Lengi voru Miðhálsstaðir annálað berjaland en síðustu ár hefur dregið mjög úr berjasprettu vegna þeirra gróðurfarsbreytinga sem orðið hafa við friðun og ræktun. Í staðinn eru þetta nú orðnar gjöfular furusveppaslóðir og athyglisverðar tegundir sambýlissveppa furu hafa fundist í reitnum. Sjá nánar: http://www.ni.is/frettir/nr/1071

 

 
Skógræktarfélag Eyfirðinga| Heimili: Kjarni, Kjarnaskógi| Póstfang: 600 Akureyri | Sími: 462 4047 | Netfang: ingi (hjá) kjarnaskogur.is