Skip to main content

KAMTSJATKA 2008

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir kynnisferð skógræktaráhugafólks til Kamtsjatka-skagans í Síberíu í Rússlandi dagana 12.-26. september 2008. Þátttakendur í ferðinni voru 55. Ferðin var undirbúin í samstarfi við Pétur Óla Pétursson, sem hefur verið fararstjóri fyrir marga íslenska ferðahópa til Rússlands og skipulagði meðal annars ferð Skógræktarfélagsins til St. Pétursborgar og Arkhangelsk árið 2006. Aðrir fararstjórar (frá Skógræktarfélagi Íslands) voru Brynjólfur Jónsson og Ragnhildur Freysteinsdóttir.

Með ferðinni gafst gott tækifæri til að heimsækja óhefðbundnar ferðamannaslóðir og kynnast stórbrotinni náttúru Kamtsjatka-skagans, en landslagsfegurð þar er mikil og einkennist af mörgum mjög háum og formfögrum eldfjöllum. Ferðin hófst með flugi um Skandinavíu til Moskvu, þar sem lent var seint að kvöldi, en í Moskvu var gist í tvær nætur áður en lagt var af stað austur á bóginn til Kamtsjatka. Í Moskvu var farið í skoðunarferð um miðbæinn og Kreml og Rauða torgið heimsótt, einnig var farið í rútuferð um borgina, þar sem hægt var að sjá margt af því markverðasta í henni – Moskvu-ána, Luzhniki-íþróttahöllina og önnur Ólympíumannvirki, gamlar hallir, Moskvu-háskóla og aðra „Stalín-skýjakljúfa“, klaustur og viðgerðar næpukirkjur og höfuðstöðvar KGB.

Sunnudaginn 14. september var svo haldið út á flugvöll. Stór hluti bæði sunnudags og mánudags fór í flugið til Kamtsjatka, enda flogið yfir mörg tímabelti, tími tapast þegar farið er í austur og seinkun á fluginu. Lent var í Petropavlovsk, höfuðborg Kamtsjatka, síðdegis þann 15. september, í sólskini og blíðu. Þar tóku staðarleiðsögumenn á móti hópnum, þau Júlía og Alexey, sem fylgdu hópnum allan tímann sem dvalið var í Kamtsjatka.

Á Kamtsjatka þurfti að skipta hópnum í tvennt, en ferðaþjónusta þar er skammt á veg komin og erfitt með gistingu fyrir þetta stóran hóp. Lagði helmingur ferðalanganna af stað áleiðis til bæjarins Esso þann 16. september, en hinn helmingurinn varð eftir í Petropavlovsk. Báðir hóparnir mættust svo um stund þann 19. september, þegar fyrri hópurinn hélt til baka til Petropavlovsk og hinn var á leiðinni til Esso og svo hittust hóparnir í Petropavlovsk þegar seinni hópurinn snéri til baka. Dagskráratriði voru hinsvegar hin sömu fyrir báða hópana, þótt á mismunandi dögum væri.

Á dagskránni í Petropavlovsk og nágrenni var ýmislegt. Safnið í Petropavlovsk var skoðað, sem er nokkurs konar blanda málverkasafns, náttúrufræðisafns og þjóðminjasafns, farið á útsýnisstað þar sem sást vel út á Avacha-flóann sem borgin stendur við og heimsótt fín sandströnd út við Kyrrahafið. Einn dagur var svo tekinn í ökuferð upp að Mutnovsky-eldfjallinu, en þar var kíkt lauslega á jarðvarmavirkjun sem þar er og heimsótt hverasvæði í útjaðri virkjunarinnar. Einn dagur í Petropavlovsk var gefinn frjáls og nýttu sumir hann til að slappa af, aðrir í skoðunarferðir á eigin vegum, en margir fóru í siglingu um Avacha-flóann, sem ferðaþjónustufyrirtæki þeirra Alexey og Júlíu bauð upp á utan dagskrár. Vildi svo skemmtilega til hjá öðrum hópnum að þegar hópurinn var á leið í land var slökkviflugvél að æfa upptöku og losun vatns og gafst því gott tækifæri til að sjá að verki þetta mikilvæga hjálpartæki í baráttunni við skógarelda.

Akstur til Esso er langur og á misgóðum malarvegum, en malbik nær ekki nema um 150 km norður af Petropavlovsk og var því gist í bænum Milkovo á leiðinni, en þar var einnig farið í gönguferð um skóginn við bæinn. Í Esso var farið í upplýsingamiðstöð Bystrinsky-þjóðgarðsins, sem staðsett er í Esso, þar sem á móti hópnum tók Hanna frá Stuttgart. Hún er í námi í vistfræði og vinnur sem sjálfboðaliði í þjóðgarðinum, sem verklegan hluta af námi sínu. Því næst tók hin innfædda Natalia við og leiddi göngu um bæinn. Að því loknu var haldið út í skóg undir leiðsögn Hönnu og mátti þar meðal annars sjá ummerki eftir skógarbirni, auk þess sem tíminn var vel nýttur í að skoða tré og annan gróður og tína fræ. Einnig var byggðasafnið í Esso skoðað, en það lýtur nær eingöngu að frumbyggjum svæðisins. Frekari fræðsla um frumbyggja fékkst svo einnig í Menedek, stuttu frá Esso, sem er nokkurs konar „menningarmiðstöð“ Evens fólksins en þar má meðal annars finna dæmi um hefðbundna íverustaði og hittust allir ferðalangarnir þar (báðir hóparnir).

Miðvikudaginn 24. september var svo komið að því að yfirgefa Kamtsjatka-skagann og halda aftur til Moskvu. Græddu þá ferðalangar aftur klukkutímana sem töpuðust í fluginu austur og þrátt fyrir tæplega níu klukkutíma flug var lent í Moskvu um hálftíma eftir að lagt var af stað! Í Moskvu var blíðskaparveður og fengu ferðalangar frjálsar hendur það sem eftir lifði dags. Daginn eftir hélt allur hópurinn svo í heimsókn í Tretyakov-safnið, eitt besta safn af rússneskri list í heiminum. Vegna þess að Aeroflot felldi niður morgunflug til Helsinki þann 26. september þurfti hluti hópsins að fara með síðdegisflugi þennan dag. Þeir sem eftir urðu fóru í bæjarferð, sem sumir nýttu til að skoða neðanjarðarlestakerfið, en aðrir fóru á „Laugaveg“ þeirra Moskvubúa, Stariy Arbat götuna. Ferðinni lauk svo með flugi heim til Íslands föstudaginn 26. september.

Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2008 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).

Í 1. tbl. Skógræktarritsins 2009 er grein um tegundir trjáa á Kamtsjatka og reynslu af þeim hérlendis og má lesa hana hér (pdf).