English website
Yrkja

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins úthlutar grunnskólabörnum trjáplöntum til gróðursetningar. Árlega gróðursetja á milli sjö og átta þúsund grunnskólanemar, frá í kringum hundrað skólum víðs vegar af landinu, tré á vegum sjóðsins. 

Yrkjusjóður var stofnaður árið 1992, en stofnfé sjóðsins var afrakstur sölu bókarinnar Yrkja, sem gefin var út í tilefni sextugsafmælis frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Sjóðurinn hefur eigin stjórn, en Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með honum og sinnir samskiptum við skólana.
 

Auglýst er eftir umsóknum í Yrkjusjóð snemma á hverju ári. Allir grunnskólar landsins geta sótt um tré til sjóðsins, hvort sem er til gróðursetninga að vori eða hausti.
 

Nánari upplýsingar og fræðsluefni um tré og gróðursetningu má finna á vef Yrkju: www.yrkja.is


Ljóðasamkeppni 2017

Í tilefni 25 ára afmælis Yrkjusjóðs árið 2017 efnir sjóðurinn, í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, til  ljóðasamkeppni meðal grunnskólabarna. Þema keppninnar er: Skógurinn minn og verða veitt verðlaun fyrir frumsamin ljóð.

Verðlaun verða veitt í tveimur flokkum- miðstig (5.-7. bekkur) og efsta stig (8.-10. bekkur). Afhending verðlauna fer fram í lok apríl 2017. Verðlaunahafar fá viðurkenningarskjal og 30.000 kr. til glaðnings sínum bekk.

Skilafrestur er til 20. mars 2017.

Ljóðin sendist til umsjónaraðila Yrkjusjóðs hjá Skógræktarfélagi Íslands:

Yrkjusjóður - ljóðasamkeppni

Þórunnartúni 6

105 Reykjavík

Eða á netfangið skog@skog.is, merkt „Ljóðasamkeppni“.

Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Freysteinsdóttir, rf@skog.is, s. 551-8150.

Yrkjusjóður/Skógræktarfélags Íslands áskilja sér rétt til að birta ljóð sem berast í samkeppnina í miðlum á þeirra vegum (heimasíðum, Laufblaðinu – fréttablaði skógræktarfélaganna, Skógræktarritinu o.fl.).