English website
REYKHOLT

Eins og flestir hlutar Íslands var Reykholt orðið skóglaust þegar kom fram á tuttugustu öld. Endurheimt skógar í Reykholti hófst á fjórða áratugnum þegar Þorgils Guðmundsson, kennari við Reykholtsskóla, hóf að fara með skólabörn í gróðursetningu. Árið 1948 hófst svo trjárækt hjá afkomendum og ættingjum hjónanna séra Einars Pálssonar og Jóhönnu K.K. Eggertsdóttur, en Einar var prestur í Reykholti 1908-1930. Hefur ræktun þeirra staðið nær óslitið síðan. 

Skógræktarfólk frá Norðurlöndum gróðursetti í Reykholti árið 1990, en það kom til Íslands í skiptiferð á vegum Skógræktarfélags Íslands. Fjórum árum síðar komu Norðmenn í annarri skiptiferð, gróðursettu og hlúðu að plöntum.
 
Aldamótaskógurinn í Reykholti er um 5 ha að stærð og kom skógræktarfólk af öllu Vesturlandi saman til gróðursetningar ásamt Evrópukórnum, fjölþjóðlegum hópi ungmenna. Gróðursett var neðan og ofan þáverandi skógar. Gróðursetning Aldamótaskógarins hefur verið unnin í samvinnu Skógræktarfélags Borgarfjarðar, Skógræktarfélags Íslands og Reykholtsstaðar, með dyggum stuðningi Kaupþings.