Skógræktarfélag Íslands

Tæting í Slögu og við þjóðveginn. Sjálfboðaliðar rífa girðingar

4. og 5. júlí  var landið fyrir neðan Slögu tætt en það tilheyrir Skógræktarfélaginu skv. samningi frá 1990. Þetta land hefur verið skorið sundur af skurðum og er þýft og erfitt yfirferðar. Þessi öflugi tætari frá Bjarmari er rúmlega 3 metrar á breidd og ótrúlega afkastamikið tæki. Þetta svæði verður samt ekki allt tætt núna, aðeins þurrari svæðin til að gera stíga og svo að við getum byrjað að gróðursetja. Þegar um hægist í haust og vetur förum við um svæðið og skipuleggjum það. T.d. væri gaman að gera tjörn þar sem blautast er neðst á svæðinu.

alt

Útlendir sjálfboðaliðar á vegum Akranesbæjar hafa undanfarið unnið ýmis störf í bænum. M.a. hafa þau fjarlægt hestagirðingar nálægt þjóðveginum á svæði sem tilheyrir Skógræktarfélaginu skv. samningi frá 2002. Hestamenn sem þarna voru með hesta áttu að fjarlægja girðingarnar í júníbyrjun en enginn þeirra hafði gert neitt í júlíbyrjun svo bærinn lét sjálfboðaliðana rífa girðingarnar. Einnig tóku þau nokkrar ónýtar girðingar sem voru á svæði okkar. Svo hafa þau verið að þrífa strandsvæðin o.fl. Þetta er afar duglegt og ósérhlífið fólk og við Akurnesingar stöndum í þakkarskuld við þau.

alt

Stór svæði svæði voru tætt við þjóðveginn 5.  júlí. Þó er eftir að tæta svæði í miðjum flóanum þar sem er mjög blautt og nokkur svæði þar sem hestamenn höfðu enn ekki fært girðingarnar. Verið er að færa girðingarnar þessa dagana þannig að hægt verði að tæta svæðin um leið og blauta svæðið verður tætt (þegar þornar).

 Aðeins hluti svæðisins verður tættur í sumar. 

Við fengum ekki yfirráð yfir Einbúanum, einu hæðinni í Garðaflóa. Óskuðum raunar ekki eftir því að fá hæðina til skógræktar en vildum að fólk hefði aðgengi að þessum útsýnisstað. Svæðið verður áfram girt með rafmagnsgirðingu og því ekki aðgengilegt almenningi.

Hér að neðan eru myndir af tætaranum í Garðaflóanum. Mávar fylgdu honum eftir og nutu góðs af tætingunni.

alt

alt

Mikill munur er á tætta svæðinu og því sem ekki hefur verið tætt. Ótættu svæðin eru oftast þýfð og erfið yfirferðar eftir alla beitina auk þess sem erfitt er að gróðursetja í þau.

alt

 

Skógræktarfélag Akraness| Dalbraut 21 | 300 Akranes | Netfang: jensbb (hjá) internet.is